Rotturnar í vímu eftir að hafa komist í sönnunargögn

Rotturnar í höfuðstöðvum lögreglunnar í New Orleans komust í feitt. …
Rotturnar í höfuðstöðvum lögreglunnar í New Orleans komust í feitt. Mynd úr safni. AFP/Joel Saget

Höfuðstöðvar lögreglunnar í New Orleans í Bandaríkjunum mega muna sinn fífil fegri. Mygla, rottur og kakkalakkar herja á bygginguna sem er að grotna niður.

Rannsóknarhagsmunir eru nú í húfi þar sem meindýrin virðast hafa komist í sönnunargagnakompuna þar sem rotturnar hafa m.a. verið að nasla á fíkniefnum sem búið er að leggja hald á.

AP greinir frá. 

„Rotturnar sem eru að éta marijúanað okkar, þær eru allar í vímu,“ sagði Anne Kirkpatrick lögreglustjóri við borgarráðsfulltrúa New Orleans, þar sem hún lýsti versnandi ástandinu.

Byggingin hefur hýst höfuðstöðvar lögreglunnar frá árinu 1968. Kirkpatrick segir ástandið orðið verulega slæmt og að lögregluþjónar hafi meðal annars þurft að þrífa rottuskít af skrifborðum sínum.

Kirkpatrick tók við embætti lögreglustjóra í október og hefur það verið forgangsmál hjá henni að finna nýtt húsnæði fyrir höfuðstöðvarnar. Hafa nú fyrstu skref verið tekin í þá átt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert