Rússar skipta um flotaforingja

Vladímir Pútín forseti Rússlands, Sergei Shoigu varnarmálaráðherra og Nikolaí Jevmenov, …
Vladímir Pútín forseti Rússlands, Sergei Shoigu varnarmálaráðherra og Nikolaí Jevmenov, lengst til hægri, við ahöfn í St. Pétursborg árið 2022. Jevmenov hefur verið vikið úr embætti flotaforingja rússneska hersins. AFP

Skipt hefur verið um flotaforingja í Rússlandi. Fréttir höfðu borist af því að sá sem áður gegndi því embætti hefði verið rekinn vegna þess að Úkraínumönnum tókst ítrekað að sökkva herskipum á Svartahafi. 

Rússneska fréttastofan RIA sagði frá því í morgun að Alexander Moisejev, sem áður var yfirmaður norðurflota Rússlands, hefði verið skipaður yfirflotaforingi. Tekur hann við af Nikolaí Jevmenov, sem hafði gegnt embættinu frá því í maí 2019.  Sagði fréttastofan að tilkynnt hefði verið um flotaforingjaskiptin í sérstakri athöfn. 

Stjórnvöld í Kreml neituðu í síðustu viku að staðfesta skipun Moisejevs en um er að ræða mestu uppstokkun innan raða æðstu herforingja Rússlands á síðustu mánuðum. 

Úkraínuher segist hafa grandað á þriðja tug rússneskra herskipa frá því Rússar réðust inn í landið í febrúar 2022. Þetta hefur þótt vandræðalegt fyrir rússnesk stjórnvöld, sem hafa neyðst til að flytja herskip frá flotastöðinni í Sevastopol á Krímskaga til hafnarborgarinnar Novorossijsk austar við Svartahaf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert