Biden og Netanjahú ræða saman

Mynd frá fundi öryggisráðs Bandaríkjanna með Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, …
Mynd frá fundi öryggisráðs Bandaríkjanna með Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, nú í kvöld vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs. Ljósmynd/AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, mun síðar í kvöld ræða við Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, í síma. Frá þessu greina bandarískir miðlar og hafa eftir embættismönnum í Hvíta húsinu.

Kemur símtalið í kjölfar þess að Íran sendi á loft um 200 dróna eða eldflaugar í átt að Ísrael fyrr í kvöld. Meirihluti þeirra var hins vegar skotinn niður af Ísraelsher, Bandaríkjaher eða flugher Jórdaníu. Einhverjar sprengjur lentu þó innan landamæra Ísraels og sagði talsmaður ísraelska hersins að minniháttar skemmdir hefðu orðið eftir árásina.

Biden ræddi við öryggisráð sitt fyrr í kvöld, en þeim fundi er lokið, eftir um tveggja klukkustunda fundarhöld.

Öryggisráðið mun áfram vinna með bandamönnum Bandaríkjanna á svæðinu til að koma í veg fyrir frekari stigmögnun átaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert