Barátta á milli Scranton-gilda og Mar-a-Lago-gilda

Joe Biden í Scranton í gær.
Joe Biden í Scranton í gær. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Joe Biden Bandaríkjaforseti vandaði mótframbjóðanda sínum Donald Trump ekki kveðjurnar er hann heimsótti æskuslóðir sínar í Scranton í Pennsylvaníuríki í Bandaríkjunum í gær. 

Í ræðu sinni kallaði Biden m.a. eftir því að hinir ríku myndu greiða hærri skatta. Sagðist hann jafnframt hafa lært snemma að peningar ákvarði ekki virði einstaklinga.

„Fólk á borð við Donald Trump lærði öðruvísi lexíur. Hann lærði að það að segja við fólk „Þú ert rekinn“ – sé fyndið,“ sagði forsetinn og vísaði þar til frægrar línu úr raunveruleikaþáttunum The Apprentice sem Trump var með umsjón með.

Lítur öðruvísi á heiminn

Biden minntist ekki orði á réttarhöldin yfir Trump sem nú standa yfir í New York. Hann var þó óhræddur við að gagnrýna forvera sinn í embætti.

Sagði hann kosningabaráttuna vera baráttu milli Scranton-gilda og Mar-a-Lago-gilda, og vísaði þar til glæsihýsis Trump í Flórída-ríki.

„Donald Trump lítur heiminn öðruvísi augum en við,“ sagði Biden.

„Hann vaknar á morgnana í Mar-a-Lago og hugsar um sjálfan sig og hvernig hann geti aðstoðað milljarðamæringana vini sína við að öðlast völd og stjórna og þvinga öfgafullan áróður sinn upp á okkur hin.“

Hann lofar blóðbaði

Þá sakaði Biden Trump um að vera ógn við lýðræði í landinu.

„Hann kveðst munu vera einræðisherra einn daginn, hann lofar blóðbaði ef hann tapar. Þessi náungi afneitar 6. janúar,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert