Norðmenn viðurkenna palestínskt ríki

Jonas Gahr Støre á blaðamannafundinum í morgun.
Jonas Gahr Støre á blaðamannafundinum í morgun. AFP/EArik Flaaris Johanesn

Norðmenn ætla að viðurkenna sjálfstæði Palestínu frá og með 28. maí. Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, greindi frá þessu á blaðamannafundi í morgun.

Spánverjar, Írar og Slóvenar eru sagðir ætla að gera slíkt hið sama innan skamms.

„Það verður enginn friður án Palestínuríkis,” sagði Støre.

Hann sagði að ekki hefði verið hægt að bíða með ákvörðunina þangað til eftir að friðarsamkomulag næðist, að sögn Aftenposten. 

Eina langvarandi lausnin

Bætti hann við að eina langvarandi lausnin á deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs væri tveggja ríkja lausn. Afstaða Norðmanna hefði lengi verið sú að Ísraelar og Palestínumenn skyldu búa hlið við hlið í friði og við öryggi. 

Palestínumenn innan um húsarústir á Gasasvæðinu í morgun eftir loftárásir …
Palestínumenn innan um húsarústir á Gasasvæðinu í morgun eftir loftárásir Ísraela. AFP/Bashar Taleb

Forsætisráðherrann lagði áherslu á að Noregur fordæmdi árás Hamas-samtakanna á Ísrael 7. október og sagði Ísraela hafa rétt á að verja sig.

Hann sagði aftur á móti að „viðurkenning Palestínu getur styrkt þau hófsömu öfl í Palestínu sem vinna að tveggja ríkja lausn. Hún getur einnig styrkt hófsöm öfl Ísraelsmegin og þetta getur fært Palestínumönnum von um betri framtíð”.

Uppfært kl. 7.28:

Írar hafa einnig viðurkennt sjálfstæði Palestínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert