Trump hefur fjarlægt myndbönd sem vísa til nasisma

Kosningateymi Trumps hefur fjarlægt myndband sem þótti vísa til þriðja …
Kosningateymi Trumps hefur fjarlægt myndband sem þótti vísa til þriðja ríkis Þýskalands undir flokksræði nasista og leiðtoga þeirra Adolfs Hitlers. AFP/Michael M. Santiago

Myndband sem birt var á samfélagsmiðlum Donalds Trumps, fyrr­ver­andi for­seta Banda­ríkj­anna og núverandi forsetaframbjóðenda, með yfirlýsingum um „sameinað ríki,“ kæmi til þess að hann myndi vinna kosningarnar, hefur verið fjarlægt af samfélagsmiðlum hans. 

Var það gert í kjölfar þess að Hvíta húsið fordæmdi myndbandið harðlega.

Kosningateymi Trumps kennir kærulausum starfsmanni um að hafa deilt myndbandinu, sem var 30 sekúndna langt og varpaði ljósi á fréttir sem draga fram mynd af bandarískri velmegun. Þar á meðal var hugtak sem venjulega er tengt við þýskan nasisma, „reich“. 

Sýnir að „frelsi okkar og sjálft lýðræðið er í húfi“

Kamala Harris, vara­for­seti Banda­ríkj­anna, gagnrýnir myndbandið og segir það skelfilegt. 

„Svona orðræða frá fyrrverandi forseta kemur ekki á óvart og hún er skelfileg. Við verðum að segja honum hver við erum,“ sagði Harris í ræðu til félagsmanna í Fíladelfíu.

„Enn og aftur sýnir það að frelsi okkar og sjálft lýðræðið er í húfi,“ sagði hún enn fremur.

Viðbúið að Joe Biden tjái sig síðar í dag

Hvíta húsið segir myndskeiðið „viðbjóðslegt, sjúklegt og skammarlegt fyrir hvern sem er að ýta undir efni sem tengist þýsku nasistastjórninni undir stjórn Adolfs Hitlers“.

„Kar­ine Jean-Pier­re, fjöl­miðlafull­trúi Hvíta húss­ins, segir viðbúið að Joe Biden Bandaríkjaforseti muni tjá sig um myndbandið síðar í dag, en hann er á kosningaferðalagi í Boston. 

Myndbandið var birt síðdegis á mánudag og var fjarlægt um 19 klukkustundum síðar.

„Landamærin eru lokuð“

„Hvað gerist eftir að Donald Trump vinnur? Hvað kemur fyrir Ameríku?“ heyrðist í umræddu myndbandi á meðan fyrirsagnir á borð við „Landamærin eru lokuð,“ „Efnahagsuppsveiflur!“ og „Stofnun sameinaðs auðvalds“ birtust á skjánum. 

Engin bein vísun er til nasista í myndbandinu en orðið „reich“ er almennt notað sem tilvísun til þriðja ríkisins Þýskalands undir flokksræði nasista og Hitlers. 

Þá mátti sjá aðrar fyrirsagnir í bakgrunni myndbandsins þar sem fyrri heimsstyrjöldin var nefnd auk fyrirsagnarinnar „sameinað ríki“ sem virðist vísa til sameiningar Þýskalands árið 1871. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka