Fréttaskýring: Hraðaspurningunum svarað á næstu dögum

Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, afhenti Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, spurningalistann
Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, afhenti Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, spurningalistann Ómar Óskarsson

Létta útgáfan“ af spurningalistanum sagði Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, er hann afhenti íslenskum stjórnvöldum spurningar framkvæmdastjórnar ESB vegna aðildarumsóknarinnar. Vísaði hann þar til samanburðar við spurningar sem sambandið lagði fyrir annað umsóknarríki, Svartfjallaland. Íslenski listinn er þó engin smásmíði, spurningarnar rúmlega 2.500 talsins.

Stefnt að því að birta svörin

„Það á að vinna hratt“ er dagskipun utanríkisráðuneytisins, sem fer fram á að fyrstu drög að svörum frá öllum ráðuneytum berist utanríkisráðuneytinu í þessari viku. Endanleg svör þurfa að hafa borist framkvæmdastjórn ESB ekki síðar en 16. nóvember svo hægt verði að taka umsókn Íslands fyrir á leiðtogafundi sambandsins í desember. Utanríkisráðuneytið ætlar ekki að taka þá áhættu að svara á seinustu stundu. Svör ráðuneytanna verða yfirfarin og samræmd í utanríkisráðuneytinu og starfsmenn ráðuneytisins eru viðbúnir því að frekari spurningar komi upp sem þurfi að svara áður en endanlegur pakki verður formlega afhentur í Brussel.

Beðið er um ítarleg og nákvæm svör en mjög misjafnt er eftir ráðuneytum hversu mikla vinnu þarf að leggja í svörin. Ljóst varð þegar pakkinn var opnaður að spurningarnar voru að mestu í samræmi við það sem búist var við en sumar eru þó ítarlegri en reiknað hafði verið með. Þær hafa nú verið birtar á vef utanríkisráðuneytisins og skv. upplýsingum sem þar fengust er stefnt að því að öll svörin verði einnig birt á vefnum.

Viðamestu spurningarnar snúast um málaflokka sem falla ekki undir EES- og Schengen-samningana. Ber þar hæst sjávarútvegsmálin en einnig er farið fram á ítarleg svör við spurningum um m.a. landbúnaðarmál, dómsmál, skatta, tolla og byggðamál að ótöldum spurningum um öryggis- og varnarmál.

Í utanríkisráðuneytinu, sem hefur yfirumsjón með höndum, hafa verið myndaðir fimm vinnuhópar. Nálægt 20 starfsmenn í ráðuneytinu vinna að verkefninu á einn eða annan hátt, flestir þó samhliða öðrum störfum. Hafa sérstakir umsjónarmenn verið tilnefndir í hverju ráðuneyti sem eru tengiliðir auk þess sem stofnunum hefur verið falið að svara spurningum hver á sínu sviði.

„Við stefnum á að skila sem mestu af okkar svörum til utanríkisráðuneytisins í vikunni,“ segir Steinar Ingi Matthíasson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þá kemur í hlut samgönguráðuneytis að svara rúmlega 200 spurningum svo dæmi sé tekið.

Viðmælendur fullyrða að með svörunum sé á engan hátt ætlunin að lýsa samningsafstöðu eða skoðunum stjórnvalda né að leggja mat á málefni, heldur snúist þetta eingöngu um að draga fram staðreyndir.

Hefur í einhverjum tilvikum verið leitað til hagsmunasamtaka og annarra utan stjórnkerfisins til að afla upplýsinga.

S&S

Af hverju eru svörin við spurningum ESB samin á ensku en ekki svarað á íslensku?

Tekið er fram í inngangi að spurningalista framkvæmdastjórnar ESB til Íslands að svara verði á einhverju af opinberum tungumálum Evrópusambandsins. Tekið er fram að æskilegast sé að fá svörin á ensku. Ef Ísland verður aðili að ESB verður íslenska eitt af opinberum tungumálum sambandsins.

Hversu margar eru spurningarnar og um hvað er spurt?

Spurningar ESB eru um 2.500 talsins, um 2.000 aðalspurningar og ríflega 500 undirspurningar. Þær skiptast í 33 kafla í samræmi við kaflaskiptingu löggjafar ESB en ekki er þó spurt út í kafla 34 og 35 sem fjalla um stofnanir. Spurt er um stjórnsýslu og stjórnmál, um innleiðingu tilskipana ESB vegna EES, um samkeppnismál, réttarvörslu, kjaramál, öryggis- og varnarmál, hvernig endurreisa á fjármálakerfið eftir fall bankanna, um fjármálaeftirlit og um stjórnkerfi fiskveiða, vernd og nýtingu auðlinda, viðskipti með aflaheimildir og eftirlit svo dæmi séu tekin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag