Andlát: Ingibjörg Smith

Ingibjörg Smith.
Ingibjörg Smith.

Ingibjörg Smith söngkona lést 9. maí sl. á heimili sínu í Annapolis í Maryland í Bandaríkjunum, 95 ára að aldri.

Ingibjörg fæddist 23. mars 1929. Foreldrar hennar voru Stefán Árnason og Stefanía S. Jóhannsdóttir.

Ingibjörg Smith var ein af fyrstu dægurlagasöngkonum Íslands og söng m.a. þrjú lög, sem kalla mætti stórsmelli, inn á plötur. Hér heima hóf hún að syngja á Röðli, vorið 1955, með hljómsveitum Ólafs Gauks og Björns R. Einarssonar. Hún gaf meðal annars út plötu árið 1956 þar sem hún söng lagið Við gengum tvö, sem varð mjög vinsælt.

Hljómað á öldum ljósvakans um árabil

Ári síðar kom önnur plata út sem hafði m.a. að geyma lagið Oft spurði ég mömmu, sem margir þekkja undir Que sera sera. Það lag sló einnig í gegn. Lagið Nú liggur vel á mér varð svo vinsælast hjá landsmönnum árið 1958. Öll þessi þrjú lög hafa hljómað á öldum ljósvakans um árabil.

Ingibjörg giftist Bandaríkjamanni, Paul W. Smith, árið 1949. Fluttust þau til Bandaríkjanna í kjölfarið en komu hingað aftur nokkrum árum síðar og settust hér að. Þau eignuðust fimm börn: Beverly, Richard, Bernhard og Cynthia eru á lífi en Linda lést barnung.

Ingibjörg fluttist síðan aftur til Bandaríkjanna árið 1967 ásamt eiginmanni og börnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert