Týndu kjörseðlarnir fundust í Madríd

Madrid á Spáni.
Madrid á Spáni. Ljósmynd/Colourbox

Búið er að hafa uppi á týndu kjörseðlunum sem nota átti í utankjörfundaratkvæðagreiðslu Íslendinga sem búsettir eru á Gran Canaria á Kanaríeyjum.

Reyndust þeir vera í flokkunarstöð DHL í Madríd eftir að hafa dottið úr kassanum sem innihélt kjörseðlana. Fóru alls 15 atkvæði á endastöð í Las Palmas af þeim 100 sem send voru upphaflega. Hin 85 atkvæðin urðu eftir í flokkunarstöðinni.

Pakkinn skemmdist 

Að sögn Alia Moussa, aðstoðarmanns ræðismanns Íslands á Las Palmas, var pakkinn illa farinn þegar hann komst í hendur starfsmanns ræðismannsskrifstofunnar.

Í framhaldinu var haft samband við DHL. Nú síðdegis tilkynnti fyrirtækið ræðismannaskrifstofunni að hin 85 atkvæðin hefðu fundist í Madríd og væru á leiðinni til Las Palmas á morgun.

„Okkur var sagt að einhver vél hefði skemmt kassann. Við búumst við kjörseðlunum á morgun og getum því endurtekið utankjörfundaratkvæðagreiðsluna á föstudaginn,“ segir Alia í samtali við mbl.is. 

Hún segir að í fyrstu hafi fólk áætlað að atkvæðunum hafi verið stolið sökum þess að pakkinn var merktur sem diplómatasending og því hafi einhver freistast til þess að skoða innihald hans.

Fundust á færibandinu 

Annað hefur komið á daginn og að sögn Auðuns Sólbergs Björgvinssonar, sölu og markaðsstjóra DHL, sást við skoðun á öryggismyndavélum að pakkinn hafi flækst í flokkunarvél.

Umslögin fundust á færibandi DHL í Madríd.
Umslögin fundust á færibandi DHL í Madríd.

„Ég fékk þær upplýsingar frá kollegum okkar á Spáni að plastumslagið flæktist í flokkunarvél sem verður til þess að gat kemur á pakkninguna. Kjörseðlarnir fóru því úr honum og beint á færibandið. Þeir fundust á færibandinu og voru enn innplastaðir. Þeim hefur nú verið komið fyrir hjá öryggisteymi DHL sem mun afhenta þessa seðla í Las Palmas á morgun,“ segir Auðunn.

Auðunn Sólberg Björgvinsson, sölu- og markaðsstjóri DHL Express á Íslandi …
Auðunn Sólberg Björgvinsson, sölu- og markaðsstjóri DHL Express á Íslandi er hér til vinstri ásamt Krists Ezerins, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka