Rýnt í samningaviðræður við ESB

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins. Reuters

Rýnifundir íslenskra sérfræðinga og sérfræðinga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til undirbúnings samningaviðræðum um aðild Íslands að ESB hófust í Brussel í dag.

Á rýnifundunum er farið yfir  löggjöf beggja aðila í þeim 33 efnisköflum sem lagasafn Evrópusambandsins skiptist í til að greina hvar íslensk löggjöf er frábrugðin og hvað semja þarf um, segir í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Á fyrsta rýnifundinum er fjallað um 5. kafla - Opinber innkaup, sem er hluti af EES-samningnum. Ísland hefur þegar tekið upp þessa löggjöf en í kaflanum er m.a að finna almennar reglur um gagnsæi, jafnræði og frjálsa samkeppni, og samræmingu reglna um gerð samninga um framkvæmdir, þjónustu og birgðakaup á vegum opinberra aðila. Markmið fundarins er að staðreyna innleiðingu löggjafarinnar og ræða framkvæmd opinberra innkaupa hér á landi.

Af hálfu Íslands sitja nokkrir sérfræðingar á þessu sviði fundinn í Brussel. Einnig gefst fulltrúum úr samningahópnum (EES I), þ. á m. fulltrúum hagsmunahópa, að taka þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað. Þetta er í fyrsta skipti sem fjarfundabúnaður er notaður með þessum hætti í rýnivinnu á vegum Evrópusambandsins en með því jafnframt unnt að ná fram nokkrum sparnaði.

Tveir rýnifundir munu fara fram um flesta samningskafla. Á þeim fyrri kynnir framkvæmdastjórnin löggjöf ESB og á þeim síðari kynnir Ísland sína löggjöf. Í einstaka köflum sem falla undir EES-samninginn, þar sem regluverkið hefur að öllu leyti verið tekið upp af Íslands hálfu, verður aðeins um einn fund að ræða.  

Að loknum rýnifundum mun framkvæmdastjórn ESB skrifa skýrslu um niðurstöðu rýnifunda og eins munu íslenskir sérfræðingar skila skýrslu til samninganefndar Íslands. Að því loknu mun Ísland annars vegar og ESB hins vegar leggja fram samningsafstöðu sína í viðkomandi köflum og hefja eiginlegar samningaviðræður, samkvæmt tilkynningu.

mbl.is