Björgólfur: Eimskipafélagið var allt of stórt og hafði aldrei frumkvæði

Björgólfur Guðmundsson á landsfundi Samfylkingarinnar.
Björgólfur Guðmundsson á landsfundi Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði í málstofu, sem haldin var á landsfundi Samfylkingarinnar í dag, að sér hefði lengi fundist það að Eimskipafélaginu, að það hefði verið allt of stórt og hefði aldrei haft frumkvæði að nokkrum hlut. Þegar einhver hafi síðan komið og reynt að sýna af sér frumkvæði hefði það verið drepið niður.

Björgólfur sagði, að þegar bornar væru saman tölur um Eimskipafélagið og Samskip kæmi í ljós, að Samskip hefðu komið rekstri sínum fyrir þannig, að 40-50% af tekjum kæmu erlendis frá en afgangurinn myndaðist á heimamarkaði. Varðandi Eimskipafélagið þá sæju hins vegar 280 þúsund hræður því fyrir tekjum. „Það þarf að breyta hugsunargangi og menn þurfa að vera djarfari," sagði Björgólfur.

Í inngangi sínum í málstofunni, sagði Björgólfur að mikilvægt væri að rjúfa flókin eignatengsl í fyrirtækjum til að tryggja að stjórnendur þeirra hafi ekki annarra hagsmuna að gæta en fjárfestanna. Sagði hann margreynt, að fjármunir töpuðust auðveldlega þegar markmið og hagsmunir eigenda væru ekki skýr.

Björgólfur sagði, að ógnin væri ekki sú, að til verði öflug og stór fyrirtæki, heldur sú að íslensk fyrirtæki skorti styrk til að eflast og dafna og ná fótfestu á erlendum mörkuðum. Sagði Björgólfur, að Íslendingar þyrftu að hafa stór og öflug fyrirtæki, sem væru að vísu lítil á erlendum markaði en byggju samt yfir styrk til að taka þátt í útrás. Þá sagði Björgólfur, að vel mætti vera, að þegar erlend fyrirtæki verði komin á íslenskan samkeppnismarkað, verði umfjöllun um íslensk fyrirtæki eðlileg.

Björgólfur var í umræðum á málstofunni spurður um Brim, sjávarútvegsarm Eimskipafélagsins, og einnig var hann spurður hvað yrði gert til að leysa málefni Dvergasteins á Seyðisfirði þar sem starfsfólki hefur verið sagt upp störfum. Björgólfur lagði áherslu á, að í sjávarútvegi verði að horfa til langs tíma. Íslendingar eigi í mikilli samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Sagðist Björgólfur stundum hafa sagt, það ætti að skikka alla alþingismenn til að verða sölumenn í sjávarútvegi erlendis í tvö ár, þá skildu þeir út á hvað hlutirnir ganga.

Björgólfur sagði ekkert sjálfsagt, að það skipti ekki máli hvað það kosti að búa til eitt kíló af fiski og koma vörunni á markað því útlendingar muni borga uppsett verð. Þegar staðan væri orðin þannig, að það borgaði sig að flytja óunninn fisk til Kína, láta vinna hann þar og setja hann síðan á markað í Evrópu því það sé ódýrara, þá verði menn að hugsa aðeins lengra en um það það sem sé að gerast í Dvergasteini og ekki sé hægt að taka einn lítinn afmarkaðan hlut og afgreiða hann. Öllu máli skipti hvað kostar að framleiða fiskinn hér á landi og því minna sem það kostaði, því betra.

Hann sagði að verið væri að skoða málefni Dvergasteins og fleiri staða á landinu sérstaklega innan Eimskipafélagsins en félagið yrði að hafa skýr markmið og það væri ekki hægt að hlaupa á milli landshluta og bjarga þessu í dag og hinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert