Björgun Guðrúnar við Lófót tefst enn

Guðrún Gísladóttir á strandstað við Lófót í júní 2002 en …
Guðrún Gísladóttir á strandstað við Lófót í júní 2002 en síðar rann skipið útaf skerinu og sökk.

Björgun íslenska fjölveiðiskipsins Guðrúnar Gísladóttur KE-15 sem sökk við Lófót í Norður-Noregi sumarið 2002 hefur enn tafist. Vegna veðurs var ekki hægt að hefja fyrstu lotu þess að lyfta henni upp á yfirborðið á sunnudaginn.

Undirbúningur norska björgunarfélagsins Seløy Undervannsservice hafði miðað það fram að ráðgert var að byrja lyfta skipinu á sunnudag. Til stendur að lyfta því aðeins upp af botninum í hverju skrefi og færa það nær landi og ekki taka það upp í yfirborðið fyrr en tekist hefði að færa það um tvo kílómetra nær landi eða nánast upp að bryggju.

Hans Marius Mastermo, framkvæmdastjóri Seløy, segir í samtali við norska blaðið Avisa Nordland að slæmt veður um helgina á strandstað hafi komið í veg fyrir hífingu. Vindhraði var 22 metrar á sekúndu á sunnudaginn og ölduhæð á fjórða metra.

Guðrún Gísladóttir strandaði og sökk undan bænum Ballstad 18. júní 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert