Vilji innan norska Stórþingsins að láta hífa Guðrúnu af hafsbotni

Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappastraumen við Norður-Noreg.
Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappastraumen við Norður-Noreg. mbl.is

Hill-Marta Solberg, varaformaður Verkamannaflokksins í Noregi, segir að Stórþingið eigi að sjá til þess að flak togarans Guðrúnar Gísladóttur, sem sökk við Lófót í Noregi 19. júní í 2002, verði híft af hafsbotni. Svo virðist sem að meirihluti sé fyrir því innan fjárlaganefndar þingsins að leggja til fjármagn til þess að koma skipinu, sem er talið mikið laskað, af hafsbotni, að sögn Lofotposten. Fjárlaganefnd þingsins hyggst leggja fram tillögur sínar vegna fjáraukalaga á morgun.

Solberg segir að meirihluti sé einnig fyrir því innan þingsins að skipið verði lyft af hafsbotni. Mikil óánægja var með það í Norður-Noregi þegar norska ríkisstjórnin ákvað að hætta við tilraunir til að ná flaki togarans upp á yfirborðið. Í staðinn var ákveðið að dæla olíu úr tönkum skipsins. Í lok maí sagði Svein Ludvigsen sjávarútvegsráðherra að aðstæður til björgunar hefðu gjörbreyst þegar í ljós kom 40 metra löng rifa á annarri síðu skipsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka