Mesta veðrið gengið yfir í Vestmannaeyjum

Hluti af þaki fauk af húsi við Strandveg í Vestmannaeyjum …
Hluti af þaki fauk af húsi við Strandveg í Vestmannaeyjum og lenti á bíl, sem talinn er ónýtur. Eyjafréttir/Sæþór

Veður hefur heldur lægt í Vestmannaeyjum en ennþá gengur á með mjög snörpum hviðum. Björgunarlið hefur náð að festa niður það sem eftir er af þaki Ímexhússins og tína saman mesta brakið í miðbænum. Þá er verið að ljúka við að binda niður þakið á kaffi Kró. Vindhraðinn á Stórhöfða fór mest í 43 metra á sekúndu rétt eftir klukkan 15 og mestur var meðalvindhraðinn 32 metrar á sekúndu.

Óskar J. Sigurðsson, vitavörður í Stórhöfða, sagði við Eyjafréttir að norðanáttin væri byljótt í Vestmannaeyjum og sagði hann að frekar væri um bylgjur að ræða en vindhviður. Þegar bylgjurnar ríða yfir fellur loftvoginn sem nemur nokkrum millibörum. „Það sér maður á lofvoginni sem er síriti og kemur eins og vaff í línuna þegar mest gengur á,“ sagði Óskar.

Veðrið núna er ekki ósvipað norðanbálinu sem gekk yfir 7. október sl. en þá mældist mesti vindharði á Stórhöfða sá sami, eða rétt tæpir 43 metrar á sekúndu sem eru um 14 vindstig á gamla skalanum. „Það heyrist talsvert í veðrinu hér en það eru ekki þessar snörpu bylgjur eins og niðri í bæ,“ sagði Óskar þegar hann var spurður um veðurhaminn á Stórhöfða sem er 121 metri og er syðsti hluti Heimaeyjar. Mesti vindhraði mældist þar í febrúar 1991 og fór þá yfir 60 metra á sekúndu og ölduhæð var 29 metrar.

Eyjafréttir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert