Segja starfsmanninn hafa hætt að eigin frumkvæði

Hinrik Morthens, framkvæmdastjóri BéBé Vöruhúss ehf., sem einnig er framkvæmdastjóri hjá Mjöll-Frigg hf., segir að annar af tveimur Litháum sem starfað hafi á lager fyrirtækisins á vegum 3B Baltic hafi sagt upp störfum í fyrradag, henni hafi ekki verið sagt upp störfum. Ágúst Grétarsson, framkvæmdastjóri 3B Baltic, tekur undir orð Hinriks, og segir konuna hafa hætt störfum að eigin ósk.

Hinrik segir að BéBé vöruhús greiði starfsmönnunum ekki laun, það sé á hendi starfsmannaleigunnar. BéBé vöruhús greiði þó dagpeninga hér á landi og útvegi fólkinu húsnæði. "Við höfum líka gert ýmsa hluti fyrir þá eins og að borga fyrir þá kostnað við að komast til og frá vinnu og annað slíkt."

Aðspurður segist Hinrik ekki vita hvað starfsmennirnir hafi í laun hjá starfsmannaleigunni. "Ég fylgist ekki með því, það er kannski ekki okkar í sjálfu sér [að gera það]."

Spurður hvers vegna starfsmennirnir hafi fengið greiðslur í reiðufé, í umslögum merktum Mjöll-Frigg, segir Hinrik: "Áttu þá við [þriðja Litháann sem enn er starfandi hjá fyrirtækinu] í gær? Það gleymdist að borga honum, við höfum borgað honum bónus, þetta er sérlega duglegur starfsmaður, og gjaldkerinn hreinlega gleymdi að borga honum bónus sem búið var að tala um. Við borgum alltaf samkvæmt launaseðlum."

Hinrik segir það fáránlegar ásakanir að greiðslur séu inntar af hendi með reiðufé tvisvar í mánuði, eins og starfsmennirnir fullyrða. "Ég þarf ekki einu sinni að neita því, þetta er bara bjánagangur, þetta er bara út í hött." Spurður hvernig greiðslurnar fari fram segir hann að það sé í verkahring gjaldkera, hann sé ekki viss hvernig það fari fram. "En ég held að öll laun séu greidd inn á reikninga."

Þegar þau laun sem starfsmenn fá greidd eru borin undir Hinrik segir hann alrangt að launin hafi verið um 65 þúsund krónur á mánuði. "Ég veit það að íslensku starfsmennirnir hér og þessir starfsmenn hafa verið að bera sig saman, og þetta er alrangt. [...] Ég þarf ekki að sýna þér nein gögn, ég heyri hvað fólk talar um, þetta er rætt við eldhúsið og fleira og þetta er bara rangt." Hann bendir á að kostnaður við leigu á húsnæði, sem fyrirtækið hafi greitt, geti hæglega verið um 30 þúsund krónur, og það eigi líka að teljast til launa.

Allir starfsmenn yfir lágmarkslaunum

"Ég veit ekki hvað er eðlilegt, ég veit bara að miðað við lágmarkslaun á Íslandi eru þeir með meira á milli handana [en lágmarkslaun eru], og töluvert meira en þeir myndu hafa í Litháen. Það sem við reynum að gera er að gera þessa hluti löglega, okkur finnst aðalatriðið að þetta fari rétt fram," segir Hinrik. Spurður hvaða laun fyrirtækið greiði íslenskum starfsmönnum sínum í sambærilegum störfum segir hann fyrirtækið ekki gefa upp laun starfsmanna. "Það eru allir starfsmenn hjá okkur yfir lágmarkslaunum, og þessir [Litháarnir] líka."

Ágúst Grétarsson, framkvæmdastjóri 3B Baltic, segir fyrirtækið ekki vera starfsmannaleigu, 3B Baltic standi að innflutningi, og þeir starfsmenn sem verið hafi hjá BéBé vöruhúsi séu þeir einu sem fyrirtækið hafi á sínum snærum á Íslandi. Þar sem þeir séu í vinnu hjá þessu litháska fyrirtæki fái þeir laun samkvæmt því, ekki samkvæmt íslenskum kjarasamningum.

ASÍ segir að 3 B Baltic sé ekki skráð starfsmannaleiga

Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi Hilmarssyni, starfsmanns átaks ASÍ gegn undirboðum, hefur 3B Baltic ekki verið skráð sem starfsmannaleiga hér á landi, þrátt fyrir ný lög sem skylda allar starfsmannaleigur sem eru með starfsemi hér á landi til þess að skrá sig.

Spurður hvernig greiðslufyrirkomulagið til starfsmanna leigunnar hér á landi sé segir Ágúst: "Þau fá hluta á bankareikning hér, og svo hafa þau beðið um að geta fengið pening á Íslandi. Við höfum komið til móts við þau og látið þau hafa peninga þar, sem þau kvitta fyrir eins og greidd laun." Hann segir ekki hægt að greiða þeim inn á bankareikning hér á landi þar sem þau hafi ekki íslenska kennitölu, og fái því ekki bankareikning.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert