VG fagnar því að Alcoa hafi ekki valið Skagafjörð

Kvöldsól í Skagafirði.
Kvöldsól í Skagafirði. Morgunblaðið/ Golli

Vinstrihreyfingin-grænt framboð í Skagafirði fagnar því að Skagfirðingar geti nú einbeitt sér aftur að uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs í héraðinu eftir að ljóst varð að Alcoa ætlar að einbeita sér að því að kanna hagkvæmi þess að reisa álver við Húsavík.

Í ályktun VG í Skagafirði segir, að þeim ljóta leik að etja saman héruðum og íbúum þeirra í einskonar rússneskri rúllettu gagnvart uppbyggingu annarra og vænlegri atvinnugreina í viðkomandi héruðum sé lokið.

Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi viljað álver í Skagafjörð og verið tilbúin til að fórna skagfirsku Jökulsánum og náttúru þeirra. Vinstri grænir hafi staðið einir stjórnmálaflokka í Skagafirði með Jökulsánum og Héraðsvötnum og uppskeri nú árangur þeirrar baráttu.

„Vinstri grænir í Skagafirði fagna því að Skagfirðingar geti nú einbeitt sér á nýjan leik að uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs í héraðinu fyrir það unga fólk sem er að mennta sig til margvíslegra starfa. Áfram verði haldið að skjóta frekari stoðum undir það atvinnulíf sem fyrir er í héraðinu eins og landbúnað og úrvinnsluiðnað, opinbera þjónustu, fjármálastarfsemi og ferðaþjónustu sem nú horfir fram á stóraukna möguleika og tækifæri að áldraugnum gengnum. Ennfremur felast mikil sóknarfæri í eflingu Hátækniseturs á Sauðárkróki, hátækniiðnaði, mennta og þróunarstarfi og fleiri vænlegum atvinnukostum sem unnið er að og styðja fjölbreyttara mannlíf í Skagafirði," segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert