Segir Jón Ásgeir fara með rangt mál

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, fer með staðlausa stafi þegar hann segir að Þórhallur Gunnarsson, umsjónarmaður Kastljóssins, og Jóhanna Vilhjálmsdóttir séu í vinfengi við Jón Gerald Sullenberger, eða hafi verið gestir hans um borð í bátnum Thee Viking, segir Þórhallur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Þórhallur segir að Jóhanna hafi ekki komið að umfjöllun Kastljóssins um Baugsmálið á nokkurn hátt og óskiljanlegt að nafn hennar sé dregið inn í málið.

„Hvorugt okkar er í vinfengi við Jón Gerald Sullenberger, og einu kynni mín af manninum eru í gegnum vinnu mína í við fjölmiðla. Önnur samskipti hef ég ekki átt við hann.“

Hann segir að hvorki hann né Jóhanna hafi nokkru sinni stigið fæti á bátinn Thee Viking, og þau hafi þar að auki hvorugt komið til Miami í Bandaríkjunum, en þar býr Jón Gerald.

„Það er algerlega á hreinu að þetta er algerlega ósatt sem Jón Ásgeir segir þarna. Hann fer algerlega með rangt mál,“ segir Þórhallur. Hann segist ekki skilja hvað forstjóra Baugs Group gangi til með yfirlýsingu sinni, nema hún eigi að vera til þess fallin að draga úr trúverðugleika Kastljóssins í umfjöllun þess um Baugsmálið. Umfjölluninni verði haldið áfram annað kvöld, og þar verði m.a. svarað því sem fram kemur í yfirlýsingu Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs Group.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert