Björgunarmenn stukku í fallhlífum á Hvannadalshnjúk

Hvannadalshnjúkur
Hvannadalshnjúkur mbl.is/RAX

Fjórir björgunarmenn frá Flugbjörgunarsveitinni hafa stokkið úr Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar. Samkvæmt upplýsingum frá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík munu fallhlífarstökkvararnir hafa stokkið beint á staðinn þar sem fimm menn lentu í snjóflóði á Hvannadalshnjúki um hádegisbil í dag. Gert er ráð fyrir að þyrla Landhelgisgæslunnar flyti fjóra björgunarmenn til viðbótar að vettvangi og fari síðan og sæki eldsneyti á Höfn í Hornafirði til að geta haldið áfram aðstoð.

Ekki er vitað til að staðið hafi verið að björgunaraðgerðum áður með þessum hætti.

Björgunarsveitarmenn eru á leið að rótum Öræfajökuls í snjóbílum og á vélsleðum og er gert ráð fyrir því, að þegar þyrlan hefur tekið eldsneyti verði fleiri björgunarsveitarmenn komnir að jöklinum og hægt verði að flytja þá á staðinn þar sem snjóflóðið féll.

Neyðarkall barst í dag klukkan 12:30 frá fimm mönnum, sem höfðu lent í snjóflóði í suðurhlíðum Hvannadalshnjúks milli Dyrhamars og hnjúksins. Munu mennirnir hafa runnið um 300 metra með flóðinu. Að sögn stjórnstöðvar Björgunarmiðstöðvarinnar í Reykjavík sluppu mennirnir allir úr flóðinu og eru þrír slasaðir. Einn er ökklabrotinn, annar viðbeinsbrotinn og snúinn á ökkla og sá þriðji er meiddur í andliti. Tveir sluppu hins vegar ómeiddir. Allir eru mennirnir þrekaðir eftir að hafa lent í snjóflóðinu og þurfa aðstoð við að komast til byggða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert