Hluti úrskurðar setts umhverfisráðherra felldur úr gildi

mbl.is/Brynjar Gauti

Íslenska ríkið og Landsvirkjun, voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknuð af kröfum sjö aðila og Áhugahóps um verndun Þjórsárvera, að öðru leyti en því að sá hluti úrskurðar setts umhverfisráðherra, þar sem heimiluð er gerð set- og miðlunarlóns norðan og vestan Þjórsárvera og veituskurðar í Þjórsárlón án undanfarandi mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, er felldur úr gildi.

Dómkröfur stefnenda voru þær aðallega „að ógiltur verði með dómi úrskurður setts umhverfisráðherra, Jóns Kristjánssonar, frá 30. janúar 2003 í heild sinni, sem felldi úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar að því er varðar þá ákvörðun stofnunarinnar að fallast á útfærslu hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar, að lónshæð Norðlingaöldulóns verði 578 m y.s., en staðfesti að öðru leyti úrskurð Skipulagsstofnunar og féllst á hina fyrirhuguðu framkvæmd með skilyrðum í 8 liðum.

Að ógiltur verði með dómi úrskurður Skipulagsstofnunar frá 12. ágúst 2002 þar sem lagst var gegn byggingu Norðlingaölduveitu í 581 m y.s., en fallist á byggingu Norðlingaölduveitu í 575 og 578 m y.s. eins og framkvæmdin var kynnt í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila með skilyrðum í 6 liðum.“

Til vara kröfðust stefnendur þess „að felldur verði úr gildi sá hluti úrskurðar setts umhverfisráðherra, Jóns Kristjánssonar, frá 30. janúar 2003 þar sem fallist var á myndun setlóns vestan Þjórsárlóns, utan friðlandsins, með tilheyrandi leiðigörðum, stíflum og skurðum með heimild til að veita vatni úr lóninu í kvíslar neðan þess þannig að tryggt verði að grunnvatnsstaða innan friðlandsins haldist sem næst óbreytt og með heimild til að veita vatni að öðru leyti úr lóninu í Þjórsárlón.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert