14 kærðir fyrir hraðakstur af lögreglunni á Akranesi

14 ökumenn voru kærðir í umdæmi lögreglunnar á Akranesi í liðinni viku eftir að ökuhraði þeirra hafði mælst yfir mörkum og í þeim hópi voru tveir sem reyndust hafa ekið með 127 km/klst hraða á Faxabrautinni þar sem hámarkshraði er 50 km. Geta báðir reiknað með að verða sviptir ökuleyfi. Ökumaður var stöðvaður eftir að ökuhraði hans hafði mælst 96 km/klst í Hvalfjarðargöngum þar sem hámarkshraði er 70. Í dagbók lögreglunnar á Akranesi segir að ökumaður taldi sér „óhætt" eftir að hann var kominn framhjá eftirlitsmyndvélunum í göngunum en gleymdi að taka með í reikninginn að lögreglan fer eftirlitsferðir um göngin og mælir á þeim ferðum hraða ökutækja.

Ökumaður bifhjóls slasaðist talsvert er hann féll í götuna við pósthúsið á Kirkjubraut. Hann var fluttur á Sjúkrahúsið á Akranesi með sjúkrabifreið og þaðan svo til Reykjavíkur og lagður inn á sjúkrahús þar. Samkvæmt frásögn vitna virðist sem hjólinu hafi verið ekið með talsverðum hraða vestur Kirkjubraut. Ökumaður hafi síðan nauðhemlað er hann nálgaðist hraðahindrun sem þarna er og við það misst stjórn á hjólinu með þeim afleiðingum að hann féll í götuna. Málið er í rannsókn.

Aðfararnótt laugardags voru rúður brotnar í verslun Olís við Suðurgötu. Grjóti hafði verið kastað gegn um tvær rúður og inn á gólf verslunarinnar. Gerðist þetta á tímabilinu 23:30 á föstudagskvöldi til 09 að morgni laugardags. Hafi einhver upplýsingar um málið er hann beðinn um að láta lögregluna á Akranesi vita.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert