Mótmælendur tóku yfir verkfræðistofu á Reyðarfirði

Um átta til tíu mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar höfðu uppi mótmæli á skrifstofu verkfræðistofunnar Hönnunar á Reyðarfirði um klukkan níu í morgun. „Þeir settu stóla fyrir dyr og fleyga undir hurðir svo að fólk komst hvorki út né inn," sagði Steinar Ómarsson vélatæknifræðingur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Mótmælendur voru allir útlendingar en þegar þeim tókst ekki að loka sig inni á skrifstofu yfirmanns og varð ljóst að búið var að kalla til lögreglu fóru þeir á brott.

„Þetta var stutt yfirtaka á húsnæðinu og púðrið fór fljótt úr mótmælunum og þeir yfirgáfu staðinn fljótlega," sagði Steinar en hann taldi að mótmælin hafi staðið í tuttugu mínútur eða svo.

Steinar sagði að litlu hefði mátt muna að mótmælendum hefði tekist að loka sig inni á skrifstofu yfirmanns og að þá hefði umsátrið trúlegast varað lengur. „Þeir læddust inn á skrifstofuna en við settum öxlina í hurðina á síðustu stundu," sagði Steinar. Um sex til sjö starfsmenn Hönnunar voru á staðnum í morgun en skrifstofan á Reyðarfirði mun lítið sem ekkert koma nálægt hönnun Kárahnjúkavirkjunar. „Við erum með almenna starfsemi og þjónum Fjarðarbyggð og nágrenni," sagði Steinar að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert