Þjónusta við börn er á háu stigi á Íslandi en samvera er af skornum skammti

Eftir Orra Pál Ormarsson orri@mbl.is
"EFNAHAGSLEGAR aðstæður hér á landi eru með því besta sem gerist í heiminum. Í því tilliti hafa íslensk börn aldrei haft það betra," segir Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna, í samtali við Morgunblaðið í dag, þar sem leitað er svara við spurningunni: Er Ísland barnvænt samfélag?

Ingibjörg segir að við búum við góða leikskóla og öflugt grunnskólakerfi. Heilsugæsla sé óvíða betri í heiminum og ungbarnadauði hvergi minni. Þjónusta við börn sé á mjög háu stigi. "Að því leyti er Ísland án efa barnvænt samfélag. Það væri vanþakklæti að halda öðru fram."

Þegar kemur að tilfinningalegu atlæti telur Ingibjörg að við gætum gert betur. "Við Íslendingar erum óhemju duglegt fólk. Við værum ekki hérna annars, þrjú hundruð þúsund hræður, á hjara veraldar.

Vilja aga, öryggi og skjól

Við vinnum mikið og höfum fyrir vikið kannski ekki alltaf nægan tíma fyrir börnin okkar. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands dvelur 71% barna átta klukkustundir eða lengur á leikskóla á degi hverjum en það er lengri tími að meðaltali en hjá starfsfólkinu. Heilt á litið held ég að við gætum bætt okkur hvað þetta varðar, sýnt börnum meiri virðingu og tillitssemi. Gefið þeim meiri tíma."

Í könnun sem Gallup gerði fyrr á þessu ári kom í ljós að 36,5% starfandi fólks á aldrinum 25-65 ára á höfuðborgarsvæðinu kveðast oft hafa takmarkaðan tíma fyrir fjölskylduna eða aðra mikilvæga aðila í sínu lífi vegna vinnu. 28,5% svöruðu sömu spurningu játandi árið 2000 og er aukningin marktæk.

Eyjólfur Magnússon Scheving grunnskólakennari segir þetta áhyggjuefni. "Íslensk börn hafa ekkert breyst í áranna rás. Þau vilja hafa aga, öryggi og skjól. Nálgunin nú til dags er hins vegar önnur. Stóra vandamálið í samfélaginu sem við búum í er hraðinn. Það eru allir að flýta sér, fullorðnir og börn. Foreldrar vinna mikið og eru fyrir vikið alltaf á síðasta snúningi, allt þarf að gerast í gær. Af þessum sökum eru börn upp til hópa rótlaus í dag. Það eru alltof mikil læti í kringum þau og alltof mikið framboð af afþreyingu. Börnin vita ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga."

Sjá bls. 10-14 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert