Formaður LK gagnrýnir hugmyndir um afnám tolla af innflutt matvæli

Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, segir tillögu þingflokks Samfylkingarinnar um afnám tolla af innfluttum matvælum fyrir 1. júlí 2008 vera afar ótrúlega og að slíkt eigi sér ekki fordæmi í íslenskri atvinnusögu. Þær skýringar sem komu fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag hjá þingmanni Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, sýni ótakmarkað hugmyndaflug.

Á vefsíðu Landssambands kúabænda er tilkynning frá Þórólfi þar sem þetta kemur fram. Þar bendir hann á ummæli Önnu um „góða reynslu Nýsjálendinga af því að fella niður stuðning við landbúnaðinn" en segir ekki hægt að líkja saman aðstæðum til landbúnaðar í Nýja-Sjálandi og Norðvesturkjördæmi. Það sýni „algjörlega ótakmarkað hugmyndaflug" sem geti haft „skelfilegar afleiðingar" fyrir þau 10.000 manns sem vinni við landbúnað og afleidd störf í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum.

„Staðreyndin er sú að engin þjóð í heiminum sem býr við hliðstæðar aðstæður og Ísland hefur farið sömu leið og Nýsjálendingar. Sú staðreynd að samningar um landbúnaðarmálin á vettvangi WTO eru nú sigldir í strand, staðfestir að þær þjóðir heimsins sem þar takast á, eru ósammála því mati Önnu Kristínar Gunnarsdóttur að nýsjálenska leiðin sé þeim fær,“ segir Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert