Jesus Sainz ætlar í mál við Íslenska erfðagreiningu

Frá höfuðstöðvum ÍE í Reykjavík.
Frá höfuðstöðvum ÍE í Reykjavík. Ásdís Ásgeirsdóttir

Jesus Sainz, einn þeirra fimm manna sem Íslensk erfðagreining (ÍE) hefur kært fyrir að stela og senda til keppinautar viðskipta- og rannsóknaupplýsingar, ætlar í meiðyrðamál á hendur ÍE bæði hér á landi sem vestanhafs. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sainz, segir ÍE hafa brotið á rétti Sainz með því að lesa einkatölvupóst hans og haldi því fram að hann sé sekur þrátt fyrir að vita betur.

Sveinn segir málið ekki snúast um það hvort Sainz hafi afritað gögn af netþjóni ÍE, það hafi hann viðurkennt að hafa gert. Málið snúist um ásakanir um að hann hafi komið þeim gögnum í hendurnar á öðrum aðila, Barnaspítala Fíladelfíu (CHOP). „Það sem gerðist var að hann afritaði gögn til að vinna með heima, afritaði allt sem hann var að vinna með, um 60.000 skrár, yfir á harðan disk [...] Við innanhúsrannsókn deCode og rannsókn Ríkislögreglustjóra hefur komið í ljós að það hefur ekkert verið átt við gögnin sem hann afritaði á harða diskinn, hann hefur ekki sent einum eða neinum þessi skjöl, ekki afritað þessi gögn á annað form," segir Sveinn.

Þetta viti ÍE en segi samt í sinni tilkynningu að Sainz hafi ásamt fjórum öðrum sent spítalanum í Fíladelfíu tölvugögn, stolið þeim í þágu spítalans. Haft sé eftir lögmanni ÍE að fimmmenningarnir hafi sent gögnin til fyrirtækis sem hafi verið stofnað til höfuðs ÍE. ,,Þessar ásakanir eru algjörlega staðlaus stafur," segir Sveinn.

Í dag hafi svo lögmaður ÍE haldið því fram að tölva Sainz hafi ekki fundist við húsleit hjá honum. Sveinn segir Sainz hafa verið með fartölvuna á sér þegar hann var handtekinn og því komi þetta ekki húsleit við. Í tilkynningu til fjölmiðla hafi ÍE haldið því fram að spítalinn og Sainz hafi sameiginlega tekið til varna í þessu máli í Bandaríkjunum. Sveinn segir Sainz ekki í neinu samfloti með spítalanum og hafi ekki tekið til neinna varna. Spítalinn taki líka fram að hann tengist honum ekki á vefsíðu sinni.

Sainz viðurkenni ekki lögsögu þessa dómstóls (í Bandaríkjunum) því samkvæmt ráðningarsamningi hans við ÍE beri að fara með mál af þessu tagi fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. ,,Hann er ekki búsettur í Bandaríkjunum, hefur enga aðstöðu þar og starfar ekki þar þannig að þessi dómstóll hefur ekki lögsögu þar yfir honum," segir Sveinn. Auk þess hafi ÍE undir höndum einkatölvupósta Sainz og það verði líklega kært til Persónuverndar. Í samningum hans við ÍE sé ekkert ákvæði um að slíkt megi.

,,Það virðist vera að ÍE fari fram með þeim ásetningi að rústa mínum umbjóðanda um leið og þeir fara í mál við hina. Því mun hann kæra þessa notkun á tölvupóstinum og fara í meiðyrðamál við deCode, því það er búið að stórskaða hans mannorð með þessari tilkynningu," segir Sveinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert