Allt að 45% hækkun á lausasölulyfjum á einu ári

Arnaldur Halldórsson

Verð á lausasölulyfjum hefur hækkað umtalsvert síðastliðið ár að því er fram kemur í verðsamanburði á verðkönnunum sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í lyfjabúðum nú í október og könnun sem gerð var í nóvember 2005. Meðalverð á algengum lausasölulyfjum hækkaði um allt að 45% milli kannana en flestar tegundir sem skoðaðar voru hækkuðu á milli 10% og 20%.

Verð á 21 tegund lausasölulyfja var skoðað í báðum könnunum og hafði meðalverð á 16 tegundum hækkað milli ára. Meðalverð á þremur tegundum lækkaði um 2-3% og verð á tveimur tegundum stóð í stað á milli kannana.

Toilax hækkaði um rúmlega 45%

Mesta hækkun var á meðalverði af Toilax sýruhjúpstöflum 25 stk. sem kostuðu kr. 237 í nóvember í fyrra en kr. 345 nú í október, sem er ríflega 45% verðhækkun. Milidson lipid krem hækkaði einnig mikið eða um 42% milli ára, og var meðalverðið á því kr. 326 í fyrra en kr. 463 nú í október.

Sem dæmi má einnig nefna að meðalverð á Pektolin hóstamixtúru hækkaði um tæplega 19% úr kr. 376 í kr. 447 og Otrivin nefúði 1 mg hækkaði úr kr. 411 í kr. 498 sem er 21% verðhækkun milli ára.

Meðalverð á Nezeril 0,5 mg nefúða og Vectavir frunsukremi stóð í stað á milli ára en verð á Paratabs verkjatöflum, Parasupps stílum og Prioderm lúsasápu lækkaði um 2-3%.

Apótekið hækkaði mest

Mesta hækkun var í Apótekinu þar sem verð á 14 tegundum lausasölulyfja hækkaði um meira en 10% milli kannana og þar af 10 tegundir yfir 20%. Í Lyfju hækkuðu 12 tegundir um meira en 10% og þar af 8 yfir 20%. Í Apótekaranum og Lyfjaval hækkuðu 10 tegundir yfir 10% og þar af voru 8 yfir 20%. Skipholtsapótek hafði oftast lækkað verð á milli kannana eða á 13 lyfjum af 21 og Garðsapótek næst oftast eða í 8 tilvikum.

Kannanirnar voru gerðar í eftirtöldum apótekum: Apótekaranum, Apótekinu, Árbæjarapóteki, Garðsapóteki, Lyf og heilsu, Lyfju, Lyfjavali, Lyfjaveri, Rimaapóteki og Skipholtsapóteki.

Nánar um verðkönnun ASÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka