9% starfsmanna Haga eru útlendingar

Bónus Suðurströnd
Bónus Suðurströnd Júlíus Sigurjónsson

Jóhanna Wagfjörð, framkvæmdastjóri Haga, segir að um 9% af heildarstarfsmannafjölda Haga séu erlent vinnuafl. Meirihluti þess hefur unnið í vöruhúsum og í framleiðslueiningum en þetta er að breytast. Árið 2005 tvöfaldaðist fjöldi erlendra starfsmanna og enn frekari aukning hefur orðið í ár. Þetta kom fram á morgunfundi Deloitte um erlent vinnuafl á Íslandi.

Hjá dótturfélagi Haga, Aðföngum eru 20% starfsmanna útlendingar af þeim 100 manns sem starfa hjá Aðföngum. Segir Jóhanna að útlendingar njóti sömu réttinda og íslenskir starfsmenn og mikil vinnugleði einkennir þá útlendinga sem starfa hjá fyrirtækinu.

Hjá Bönunum, dótturfélagi Haga, eru útlendir starfsmenn um 23% af heildarfjölda starfsmanna.

Hjá Ferskum kjötvörum, dótturfélagi Haga, eru 33% starfsmanna útlendingar. Segir hún að mjög margir þeirra séu menntaðir kjötiðnaðarmenn.

Hjá Hýsingu, sem er vöruhús fyrir sérvöru og dreifingu, eru 58% starfamanna útlendingar. Segir hún að mjög margir Pólverjar starfi hjá Hýsingu en alls eru starfsmenn af 13 þjóðernum.

Jóhanna segir að sú breyting sé að eiga sér stað að útlendingar eru farnir að koma til starfa í verslunum Haga. Nefndi hún Bónus sem dæmi en þar hefur útlendingum fjölgað mjög. Jóhanna segir að þetta hafi fengið jákvæð viðbrögð hjá viðskiptavinum sem ekki eru bara Íslendingar heldur eru æ fleiri viðskiptavinir Bónus útlendingar.

Hagar hefur yfirleitt ekki flutt inn starfsfólk erlendis frá en það hafi hins vegar verið rætt í framkvæmdastjórn Haga. En eftir að fyrirtækið fór að auglýsa á erlendum tungumálum hafa útlendingar í auknu mæli komið til fyrirtækisins.

Segir hún að Hagar telji að það sé ekkert atvinnuleysi á Íslandi. Það fólk sem sé án atvinnu vill ekki vinna í verslun enda sé lítið um að Íslendingar sæki um starf hjá verslunum Haga. Með því að ráða útlendinga sé hægt að manna stöðugildi hjá félaginu. Eins segir hún að Hagar telji eldri borgara vera eftirsóknarvert vinnuafl. Með því minnkar starfsmannaveltan og stöðugleiki í rekstri eykst. Segir hún þetta hafa bein áhrif inn í verðlag í verslunum Haga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert