Margréti Sverrisdóttur sagt upp hjá Frjálslyndum

Margrét Sverrisdóttir.
Margrét Sverrisdóttir.

eftir Brján Jónasson

brjann@mbl.is

Margréti Sverrisdóttur var í gærkvöldi sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra þingflokks Frjálslynda flokksins og gert að hætta störfum 1. mars nk. Hún segist ekki í vafa um að uppsögnin stafi af því að hún hafi mótmælt rasískum hugmyndum Jóns Magnússonar og ætlar að leggja málið fyrir miðstjórn flokksins.

"Þetta kom mér gersamlega í opna skjöldu, ég átti ekki von á þessu eftir tæplega tíu ára starf fyrir flokkinn," sagði Margrét þegar Morgunblaðið hafði samband við hana vegna málsins á tólfta tímanum í gærkvöldi.

"Ég vildi ræða málefni útlendinga og þennan vanda sem vinnumarkaðsmál, en ég fullyrði að ég hafi verið rekin fyrir að mótmæla rasískum hugmyndum Jóns Magnússonar og að vilja halda fast í stefnu flokksins."

Margrét hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra og ritara Frjálslynda flokksins, auk starfs framkvæmdastjóra þingflokksins. Hún segir að í bréfi frá Guðjóni A. Kristjánssyni, formanni flokksins, sem henni barst kl. 15 í gærdag, hafi hún verið spurð hvort hún ætlaði að bjóða sig fram til þingsetu fyrir flokkinn í komandi alþingiskosningum og það tekið fram að slíkt samrýmdist ekki starfi hennar sem framkvæmdastjóra flokksins.

Margrét segist hafa ákveðið að bjóða sig fram til fyrsta sætis á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og hafa svarað því til. Það hafi hingað til ekki þótt ósamrýmanlegt öðrum störfum hennar að vera í framboði, hvorki í síðustu alþingiskosningum, þegar hún fór fyrir listanum í sama kjördæmi, eða í borgarstjórnarkosningum á síðasta ári. Óskiljanlegt sé hvað breyst hafi síðan þá.

Seint í gærkvöldi barst Margréti svo uppsagnarbréf, en þar var henni sagt upp sem framkvæmdastjóra þingflokksins, ekki framkvæmdastjóra flokksins alls eins og talað var um í fyrra bréfinu. Hún segir það ekki breyta neinu um áform sín um framboð, en ljóst sé af þessu að forysta flokksins beri ekki traust til hennar. Hún segist ætla að gegna störfum framkvæmdastjóra og ritara flokksins áfram, enda geti þingflokkurinn ekki sagt henni upp þeim störfum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert