Fær ekki bætur fyrir gæsluvarðhald

Hæstiréttur hafnaði því í dag, að maður sem sat í gæsluvarðhaldi í tæpa viku árið 2004 vegna gruns um aðild að innflutningi á rúmlega 10 kg af hassi, eigi ekki rétt á skaðabótum. Ekki var höfðað mál á hendur manninum en Hæstiréttur segir, að ekki verði annað séð en að fullt tilefni hafi verið til þess að úrskurða manninn í gæsluvarðhald þar sem rökstuddur grunur hefði beinst að honum og gæsluvarðhaldið hafi ekki verið lengra en efni stóðu til.

Málavextir voru þeir, að tollgæslan á Keflavíkurflugvelli stöðvaði DHL-hraðsendingu frá Khatmandu í Nepal. Sendingin var um 34 kíló og var samkvæmt farmskírteini sögð innihalda 21 útskorin skrautmun ætlaðan til gjafa, en munirnir voru ekki taldir hafa viðskiptalegt verðmæti. Við rannsókn kom í ljós að hass var falið í öllum skrautmununum, samtals 10.102,66 grömm. Umræddur maður var eini maðurinn sem fannst í þjóðskrá með skráðu nafni viðtakanda en hann hafði áður komið við sögu lögreglunnar vegna lítils háttar fíkniefnabrots.

Að lokinni rannsókn á sendingunni var af hálfu lögreglu gengið svo frá henni, að unnt væri að afhenda hana skráðum móttakanda, eins og hún hefði ekki verið opnuð. Í sendinguna var settur hlerunarbúnaður og fengin heimild til að hlera síma mannsins. Lögreglumenn gengu síðan inn í sendingarferlið í samvinnu við flutningafyrirtækið.

Maðurinn byggði bótakröfu sína einnig á því, að lögreglan hafi gengið lengra við að afhenda sendinguna en sendingarferli flutningafélagsins bauð. Með því hafi lögreglan seilst of langt í því skyni að gera manninn tortryggilegan. Hæstiréttur segir, að maðurinn hafi ekki sýnt fram á að tilraunir lögreglunnar til að hafa upp á viðtakanda sendingarinnar hafi gengið lengra en venjulegt sé við afhendingar sendinga, sem hraðsendingarfyrirtæki annist.

Fram kemur í dómnum, að þegar maðurinn hafði fengið skilaboð um að hann ætti sendingu hjá DHL-hraðsendingarþjónustu hringdi hann til fyrirtækisins. Þar var honum sagt, að hann ætti þar 33,5 kílóa pakka, sem hann gæti sótt eða fengið sendan heim. Sagði maðurinn best, að pakkanum yrði komið til hans. Honum var sagt að aðflutningsgjöld væru 31.000 krónur og svaraði hann þá, að það væri í lagi.

Lögreglumaður fór síðan með sendinguna á uppgefið heimilisfang og var þá maðurinn að koma að húsinu með vinkonu sinni og tók hann við sendingunni, kvittaði fyrir hana og greiddi uppgefinn kostnað. Þegar sendingin var komin inn í íbúð heyrðist af hlerunarbúnaðinum í henni að strax var farið að eiga við pakkann. Skýrt heyrðist að karlmannsrödd sagði: „það hlýtur að vera í kistlinum”, kvenmannsrödd sagði „já, já”, karlmannsrödd sagði „já” og í framhaldi af því var bankað í kistilinn. Síðan heyrist sagt: „flottur kistill maður geðveikt” en svo er eins og kistillinn sé dreginn eða eitthvað átt við hann.

Í framhaldi af þessu réðust lögreglumenn til inngöngu í íbúðina. Við rannsókn í íbúðinni fundust tveir plastpokar sem lögreglan telur vera utan af fíkniefnum en maðurinn viðurkenndi að hafa stöku sinnum reykt maríjúana.

Maðurinn neitaði sekt frá upphafi og bar því við að hann hefði tekið við sendingunni af forvitni og greitt aðflutningsgjöldin þar sem sig hafi ekkert munað um þau. Lögreglu þótti þessar skýringar og aðrar ótrúverðugar og krafðist gæsluvarðhalds yfir manninum.

Hæstiréttur segir, að þegar atvik málsins séu virt eftir á verði ekki annað séð en fullt tilefni hafi verið til þess að úrskurða manninn í gæsluvarðhald þar sem rökstuddur grunur hafði beinst að honum. Ákæra hafi hins vegar ekki gefin út á hendur honum þar sem sannanir þóttu ekki nægar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert