Meirihluti íbúa á Norðurlandi hlynntur álveri á Bakka við Húsavík

Á Bakka, norðan Húsavíkur. Kinnafjöllin handan Skjálfandaflóa í baksýn.
Á Bakka, norðan Húsavíkur. Kinnafjöllin handan Skjálfandaflóa í baksýn. Hafþór Hreiðarsson

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Capacent Gallup hefur gert meðal íbúa á Norðurlandi eru 58,2% þeirra hlynnt bygginu álvers á Bakka við Húsavík, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Alcoa Fjarðaáli nú síðdegis. 27,7% svarenda voru andvíg álveri á Bakka. Er þetta ein þriggja kannana sem Capacent Gallup hefur unnið fyrir Alcoa Fjarðaál.

„Ef aðeins er horft til viðhorfa Húsvíkinga kemur í ljós að 75,8% íbúa eru hlynnt hugsanlegu álveri en 17,9% andvíg,“ segir í könnuninni. „Þegar spurt var um viðhorf til álvers í Reyðarfirði reyndist 51% svarenda á landsvísu hlynnt framkvæmdinni en 29% andvíg. Hlutfall þeirra sem eru hlynntir byggingu álversins er ívið lægra nú en í könnun sem gerð var um svipað leyti fyrir fjórum árum. Þá var hlutfallið 53,7%. Hæst fór það í könnun í apríl 2004 er það var 65,2% en lægst í 50,2% í sumar þegar umræðan um Kárahnjúkavirkjun stóð sem hæst.“

„Viðhorf meirihluta svarenda til Alcoa Fjarðaáls var einnig jákvætt í Norðurlandskönnuninni. Þannig svöruðu 58,7% því til að þeir væru frekar eða mjög jákvæðir í garð fyrirtækisins.“ Fram kemur í tilkynningu Alcoa Fjarðaáls að 19,5% Norðlendinga séu neikvæðir í garð fyrirtækisins.

„Í annarri könnun, sem Capacent Gallup framkvæmdi á Mið-Austurlandi, kemur í ljós að stuðningur við álversframkvæmdirnar og Alcoa Fjarðaál er afgerandi. Þannig svara 83,9% íbúa því til að þau séu jákvæð gagnvart fyrirtækinu og 82,2% eru hlynnt byggingu álvers í Reyðarfirði.“

Í könnun Capacent Gallup sem náði til íbúa á öllu landinu hafi nákvæmlega helmingur þátttakenda reynst „vera jákvæður í garð Alcoa Fjarðaáls eða 50%. Rúmur fjórðungur eða 26,8% reyndist neikvæður í garð fyrirtækisins og tæpur fjórðungur, 23,2%, var hlutlaus. Sé afstaða íbúa Norðausturkjördæmis til álversframkvæmda í Reyðarfirði skoðuð kemur í ljós að þrír af hverjum fjórum, eða 75%, eru hlynntir þeim. Alls reynast 75,9% íbúa kjördæmisins jákvæðir gagnvart Alcoa Fjarðaáli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert