Lögreglustjóri á eftirlitsgöngu í miðborginni

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri nýs embættis á höfuðborgarsvæðinu, fór í dag í eftirlitsgöngu um miðborgina en eitt af markmiðunum með því að sameina lögregluembætti á svæðinu er að auka sýnilega löggæslu, grenndarlöggæslu og hverfalöggæslu.

Stefán var þó ekki einn á ferð því með honum var Steinþór Hilmarsson lögregluvarðstjóri. Þeir hófu ferðina með því að kanna aðstæður á Hlemmi og þeir litu jafnframt við á nokkrum krám við Laugaveg og Rauðarárstíg. Ekki er hægt að segja annað að Stefán hafi fengið góðar viðtökur þar sem hann kynnti sig.

Lögregluembættið tók til starfa á miðnætti aðfaranótt nýársdags, en þá voru lögregluembættin í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði sameinuð og er Stefán Eiríksson yfirmaður þess. Svipaðar breytingar hafa verið gerðar í öðrum landshlutum, en alls mun lögregluliðum fækka úr 26 í 15.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert