Loðna veiddist norðan Þistilfjarðar

Guðmundur Ólafur veiddi um 250 tonn af loðnu í nótt.
Guðmundur Ólafur veiddi um 250 tonn af loðnu í nótt. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnun veiddist loðna norðan við Þistilfjörð í nótt, en þar eru nú stödd tvö rannsóknarskip auk þriggja leitarskipa. Að sögn Þorsteins Sigurðssonar, sviðsstjóra nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunarinnar, er greinilegt að þar hafi fundist loðna í veiðanlegu ástandi.

Rannsóknarskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson lögðu úr höfn 3. janúar sl. til loðnuleitar. Með þeim í för eru skipin Huginn VE frá Vestmannaeyjum, Beitir NK og Guðmundur Ólafur ÓF. Að sögn Þorsteins veiddi Guðmundur Ólafur um 250 tonn af loðnu. Hann sagðist ekki hafa nákvæmar tölur varðandi veiði annarra skipa en ljóst sé að þau hafi náð í loðnu.

Þorgeir segir að of snemmt að geta sagt nokkuð til um loðnumagnið eins og er, en unnið er að mælingum á svæðinu. „En það er loðna í veiðanlegu ástandi þarna og það sýnir sig á því að skipin hafa fengið eitthvað.“

Aðspurður segir Þorgeir að áætlunin sé sú að ná trúverðugri mælingu á loðnustofninum. „Það hefur engan endi í tíma, í raun og veru, á meðan okkur hefur ekki tekist það.“

Um síðustu helgi var mikil bræla á svæðinu og þurftu rannsóknarskipin að liggja í vari við Grímsey. Veður á svæðinu er sem stendur með þokkalegasta móti en það spáir hinsvegar ekki góðu. Skipin fara því nú grófa yfirferð yfir svæðið áður en það brælir á nýjan leik.

Verið að leita að loðnuárangi frá 2004 og hefur leitin staðið yfir frá því í fyrravor. Árgangsins varð fyrst vart sl. föstudag. „Það má eiginlega segja að hann hafi ekki sést fyrr,“ segir Þorgeir og bætir því við að árgangurinn virðist vera að síga suður með Kolbeinseyjarhryggnum og þaðan vestur um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert