Samið um staðsetningu fyrirhugaðs álvers í Helguvík

Tölvumynd sem sýnir hvar hugsanlegt álver í Helguvík myndi rísa.
Tölvumynd sem sýnir hvar hugsanlegt álver í Helguvík myndi rísa.

Sveitarfélögin Reykjanesbær og Garður hafa samþykkt samkomulag um legu lóðar fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Samkvæmt samkomulaginu verða ker- og steypuskálar álversins innan sveitarfélagsins Garðs en súrálsgeymar, skrifstofubyggingar og fleiri mannvirki verða í landi Reykjanesbæjar.

Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að álverið yrði allt í landi Reykjanesbæjar en með brotthvarfi varnarliðsins á síðasta ári opnuðust ný tækifæri til staðsetningar sem nú hafa verið nýtt. Jafnframt hafa sveitarfélögin tvö orðið ásátt um að skiptingu tekna af fasteignagjöldum sín á milli.

Í tilkynningu frá bæjarfélögunum er haft eftir Oddnýju Harðardóttur, bæjarstjóra í Garðinum, að hún fagni þessari niðurstöðu og það sé ánægjuefni að sveitarfélögin hafi tekið höndum saman um atvinnuppbyggingu á svæðinu. Þá sé afar mikilvægt að álverið muni rísa á stað þar sem það fari vel í landi og því sé þar með sköpuð góð skilyrði til starfseminnar. Þá skipti umhverfismálin miklu og allir hlutaðeigandi aðilar muni leggjast á eitt um að vanda þar til verka.”

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir að besti kostinn hafi orðið fyrir valinu þegar tekið sé tillit til umhverfisins og framtíðaruppbyggingar á svæðinu.

„Á síðasta ári vorum við að upplifa stærstu hópuppsagnir í sögu þjóðarinnar, en fólk var sjálfbjarga, fann sér tímabundin störf eða sætti sig við launalækkun. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að geta skapað 1000 - 1100 ný, vel launuð og örugg framtíðarstörf... Við leggjum afar mikla áherslu á umhverfisþáttinn og Norðurálsmenn eru samstiga okkur í því að hér verði beitt bestu fáanlegu tækni til hreinsunar á útblæstri frá álverinu, vandað verði til útlits og umhverfishönnunar og fylgst grannt með framþróun á sviði umhverfismála,” segir Árni í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert