Innlegg úr söfnun fóru jafnóðum inn á persónulegan bankareikning forstöðumanns

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármál meðferðarheimilisins Byrgisins er m.a. fjallað um fjársafnanir, sem skipulagðar voru fyrir Byrgið. Fram kemur m.a. að í einni söfnun, sem einstaklingar höfðu frumkvæði að og stóðu fyrir, voru innlegg á söfnunarreikning jafnóðum millifærð af Guðmundi Jónssyni, forstöðumanni Byrgisins, inn á hans persónulega bankareikning.

Um var að ræða fjársöfnun, sem aðstandendur eins fyrrverandi skjólstæðings hófu á síðasta ári að honum látnum. Söfnunarfé var að þeirra sögn ætlað að brúa það bil, sem oft myndast þegar skjólstæðingar koma peningalausir í Byrgið og hafa því ekki tök á að greiða vistgjald fram að næstu útborgun örorkulífeyris eða sveitarfélagaframlags.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir, að stjórnendur Byrgisins hafi í fyrstu ekki kannast við umrædda söfnun þegar málið var borið upp á fundi með þeim en í ljós kom, eftir að þeim var gefið upp númer bankareikningsins, að hann var skráður á Byrgið og yfirlit um færslur aðgengilegar í heimabanka. Af bankayfirlitinu kemur fram að á tímabilinu frá 14. júní til 31. október 2006 voru lagðar tæpar 122 þúsund krónur inn á reikninginn í nafni umrædds skjólstæðings.

Í skýrslunni segir, að þegar Guðmundur var spurður hvers vegna hann hefði millifært féð inn á sinn reikning hafi hann sagst hafa talið, að um aðra söfnun væri að ræða. Ríkisendurskoðun segir, að tekna vegna þessarar fjársöfnunar sé hvergi getið í bókhaldi Byrgisins og ekki hafi verið gerð grein fyrir hvernig þeim var ráðstafað.

Í skýrslunni kemur einnig fram, að fjáröflun hafi verið í gangi undanfarin ár til stuðnings Byrginu. M.a. hafi fyrrverandi skjólstæðingur safnað fé frá einstaklingum og fyrirtækjum.

Ríkisendurskoðun fékk afhentar upplýsingar um fjárhæðir þessara styrkja auk reikninga vegna útlagðs kostnaðar söfnunarmanns. Framlögð fylgiskjöl sýna að árið 2005 nam söfnunarfé um 4,7 milljónum og um 6 milljónum árið 2006. Útlagður kostnaður nam tæplega 350 þúsund krónum árið 2005 og um 435 þúsund krónum árið 2006 eða um 7% af söfnunarfé hvors árs.

Stjórnendur Byrgisins vöktu athygli á því að samkvæmt munnlegu samkomulagi við söfnunarmann skyldu 85% söfnunarfjár renna til Byrgisins en 15% til söfnunarmanns sjálfs. Ríkisendurskoðun hefur eftir söfnunarmanninum, að hann hafi á árinu 2005 afhent forstöðumanni andvirði söfnunarfjárins í reiðufé, eins og verið hafði nokkur ár á undan. Forstöðumaðurinn neiti hins vegar að hafa fengið móttekið nema rétt um 100 þúsund krónur.

Árið 2006 varð breyting á þegar söfnunarfé var lagt inn á bankareikning. Samkvæmt bankayfirliti tók söfnunarmaðurinn út rúmlega 1,5 milljónir króna árið 2006 og forstöðumaðurinn tæplega 1,1 milljónir. Að auki voru um 1,5 milljónir teknar út án þess að fyrir liggi hver átti þar í hlut.

Ríkisendurskoðun segir, að tekjur af þessum söfnunum hafi ekki skilað sér inn í bókhald Byrgisins og séu útlagður kostnaður söfnunarmanns og þóknun hans hvergi skráð í bókhaldi. Óvíst sé hvernig því fjármagni, sem tekið var út af reikningnum, var ráðstafað.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Byrgið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert