Icelandair flýgur milli Akureyrar og Keflavíkur í sumar

Icelandair mun í sumar bjóða brottför og komu í millilandaflugi sínu á Akureyri. Farþegar fljúga til og frá Akureyri með 37 sæta Dash-8 flugvél Flugfélags Íslands og tengjast beint við millilandaflug Icelandair í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. Þessi þjónusta hefst 15. júní og stendur til loka ágúst.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair verður um að ræða beint flug snemma morguns frá Akureyri til Keflavíkur og flug síðdegis frá Keflavíkurflugvelli norður. Farþegar munu innrita sig og farangur sinn á Akureyri og fara þar í gegnum tollskoðun og koma inn í Leifsstöð með sama hætti og millilandafarþegar. Sama fyrirkomulag verður síðdegis þegar farþegar koma erlendis frá. Þá fara þeir beint um borð í flugvélina norður og fá farangur sinn og fara í gegnum tollskoðun á Akureyri.

Flogið verður á mánudögum, fimmtudögum og föstudögum og verður brottför frá Akureyri kl. 5:50 og lent í Keflavík kl. 6:40. Síðdegis verður brottför frá Keflavík kl. 18 og koma til Akureyrar kl. 18:50.

Icelandair Group fagnar á þessu ári 70 ára afmæli félagsins, en það á rætur að rekja til stofnunar Flugfélags Akureyrar árið 1937.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert