Gæsluvarðhald staðfest yfir meintum kynferðisbrotamanni

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður sæti gæsluvarðhaldi til 26. janúar vegna gruns um að hann hafi reynt að lokka stúlkubörn upp í bíl sinn. Maðurinn hefur neitað sök.

Malavextir eru raktir í úrskurði héraðsdóms. Þar kemur fram, að lögreglunni bárust nokkrar tilkynningar um það sl. mánudag, að maður væri að reyna að lokka stúlkur inn í bifreið sína. Fyrsta atvikið átti sér stað um kl. 14 en tilkynnt var að maður hafi stöðvað bifreið í Sólheimum, nálægt Goðheimum, og boðið 7 ára stúlkubarni að koma og skoða geisladiska í bíl sínum. Barnið þáði það ekki, en lýsti manninum sem dökkhærðum, með derhúfu, alskegg og frekar grönnum í framan. Hafi bifreiðin verið á stærð við VW Polo.

Önnur tilkynning barst einum og hálfum tíma síðar. Þá hafði 12 ára gömul stúlka verið á leið heim til sín þegar maður stöðvaði bíl hjá henni, sýndi henni mynd og spurði að því hvort hún hafi misst myndina. Hann spurði hana næst hvar næsta sjoppa væri og hvort hana langaði að sjá typpið á sér. Stúlkan hljóp þá á brott. Hún lýsti bíl mannsins sem gráum, gömlum og druslulegum, svolítið kassalaga og manninum lýsti hún þannig að hann væri með skegghýjung.

Móðir stúlkunnar sagði lögreglu, að barnið hefði verið í miklu uppnámi. Skömmu síðar hringdi móðirin aftur og sagðist hafa verið á leið með tvær aðrar dætur sínar við Skeiðarvog. Hefðu stúlkurnar beðið nærri bíl móður sinnar en hún séð hvar bíl var ekið löturhægt framhjá þeim. Bíllinn hafi verið kassalaga og hægri framrúða verið niðri. Sagðist konan hafa séð manninn, sem var með dökkbláa prjónahúfu, með sex daga skegg og grannleitur, um 25-30 ára gamall. Hafi maðurinn verið mjög flóttalegur við þetta og hún verið sannfærð að um sama mann væri að ræða og hafi reynt að fá 12 ára dóttur hennar inn í bifreið til sín.

Litlu síðar, eða um klukkan 17:46, barst enn ein tilkynning. Var rætt við föður 5 ára stúlku er sagði dóttur sína hafa komið heim, hágrátandi, eftir að maður hefði lokkað hana inn í kofa er stæði við leiksvæði. Mun maðurinn hafa lokkað barnið inn í kofann og í kjölfarið fjarlægt vettlinga af höndum hennar og spurt hvort hún vildi „borða á sér typpið”. Þá sagðist faðirinn hafa tekið eftir því að dóttur hans vantaði einn vettling er hún hafi komið heim, bleikan á lit.

Á leiksvæðinu ræddu lögreglumenn við tvo drengi, sem sögðust hafa séð ókunnan mann, meðalháan, klæddan í gráan eða brúnan jakka, í gallabuxum og með skegg standa við leiksvæðið skömmu áður og reykt. Á þeim stað fann lögregla sígarettustubb og fótspor. Þá sögðu drengirnir að þeir hefðu séð manninn leiða litla stúlku með sér í nágrenni við umræddan kofa. Þegar lögreglumenn fóru að kofanum fundu þeir bleikan vettling á jörðinni auk þess er þeir fundu samskonar skófar og þar sem drengirnir sögðu, að maðurinn hafi staðið og reykt. Við athugun lögreglu á skóm mannsins, sem hann var í við handtöku, virtist vera um samskonar skómynstur að ræða.

Fjórða tilkynningin barst lögreglu um kl. 18:19 þar sem sagt var að maður, dökkur yfirlitum hafi reynt að lokka fjórar 11 ára stúlkur inn í bifreið sína við Nökkvavog. Var lýsing einnar stúlkunnar á þá leið að bifreiðin hafi verið þriggja dyra ljós Opel og bifreiðin hafi verið skítug. Hefðu hinar stúlkurnar sagt henni að barnabílstóll hafi verið í aftursæti bifreiðarinnar og grár jakki í framsætinu, farþegamegin.

Maðurinn var handtekinn klukkan 18:03 þennan dag þegar hann kom að heimili sínu. Þá var lagt hald á bíl sem hann ók. Maðurinn neitaði sakargiftum en viðurkenndi að hafa verið eitthvað á ferðinni og að hafa spurt eina stúlku, hann hélt að hafi verið á aldrinum 9-13 ára, til vegar.

Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur töldu vera forsendur fyrir að fallast á kröfu lögreglu um gæsluvarðhald yfir manninum á meðan mál hans væri rannsakað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert