Helgarhlé á umræðu um Ríkisútvarpið

Fundi var slitið á Alþingi laust eftir klukkan 17 í dag og hefur nýr fundur verið boðaður á mánudag. Enn sér ekki fyrir endann á þriðju umræðu um frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. en 11 þingmenn eru enn á mælendaskrá. Þriðja umræða um frumvarpið hófst á mánudag og hafa verið kvöldfundir öll kvöld vikunnar þar til nú þar sem aðeins hefur verið rætt um Ríkisútvarpið.

Undir lok umræðunnar í dag sagðist Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hafa fengið það staðfest hjá nefndarsviði Alþingis í dag, að samkvæmt frumvarpinu þurfi þeir einstaklingar, sem aðeins hafa fjármagnstekjur, ekki að greiða nefskatt vegna Ríkisútvarpsins. Sagði Jóhanna, að á síðasta ári hefðu um 2200 manns eingöngu greitt skatt af fjármagnstekjum.

„Þetta finnst mér alveg skelfilegt," sagði Jóhanna, og benti einnig á að umræddur skattgreiðendahópur þyrfti heldur ekki að greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra eða útsvar til sveitarfélaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert