Frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. samþykkt á Alþingi

Frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. var samþykkt á Alþingi í dag.
Frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. var samþykkt á Alþingi í dag. mbl.is/ÞÖK

Frumvarp um að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag var samþykkt á Alþingi í dag eftir langa atkvæðagreiðslu þar sem stjórnarandstæðingar vönduðu frumvarpinu og stjórnarflokkunum ekki kveðjurnar. Sögðu þeir að frumvarpið myndi leiða til enn ákafari deilna um stöðu Ríkisútvarpsins en áður. Þingmenn stjórnarflokkanna svöruðu fullum hálsi, og sögðu m.a. að með frumvarpinu væri verið að gera Ríkisútvarpinu úrræði til að mæta samkeppni og tryggja stöðu þess til framtíðar.

Sólveig Pétursdóttir, forseti þingsins, barði ákaft í fundarbjöllu sína þegar háreisti þingmanna í salnum varð of mikil. Sagði hún, að það færi að stórsjá á bjöllunni, ef þingmenn héldu ekki ró sinni þrátt fyrir að það væru kosningar í vor.

Á endanum var frumvarpið samþykkt með 29 atkvæðum gegn 21. Frávísunartillaga stjórnarandstöðunnar var áður felld með 29 atkvæðum gegn 22.

Í umræðum um atkvæðagreiðsluna sagði Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, að líkur væru á að samþykkt frumvarpsins leiddi til enn ákafari deilna um stöðu Ríkisútvarpsins en áður. Þá væri það varhugavert skref, að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélög, en samskonar skref hefðu oftast leitt til þess að fyrirtækin væru seld úr almannahöndum. Þá væri ólíklegt að óvinsæll nefskattur auki samstöðu almennings um Ríkisútvarpið. Sagði Mörður, að aðrar leiðir væru bæði færar og eðlilegar.

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að það væri dapurleg stund þegar gengið yrði til þess verks, að breyta rekstarformi Ríkisútvarpsins.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði stjórnarandstaðan hefði loks látið af málþófi um málið og lýst yfir uppgjöf. Sagði Sigurður Kári, að verulega hefði verið komið til móts við stjórnarandstöðuna í meðferð málsins, en svokölluð sáttaboð, sem komið hefðu fram frá stjórnarandstöðunni að undanförnu væru ekki slík heldur kröfur um að stjórnarflokkarnir falli frá öllum meginmarkmiðum sínum.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, sagði, að þetta væri ein af dapurlegri atkvæðagreiðslum þessa kjörtímabilsins. Hún sagðist vilja leiðrétta þann málflutning, að málefnalegar ræður stjórnarandstöðunnar hefðu verið málþóf og að sameiginleg yfirlýsing stjórnarandstöðunnar frá því í gær væri uppgjöf. Kolbrún sagði, að þessi einkavæðing Ríkisútvarpsins væri skref í þá átt, að selja stofnunina.

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, sagðist ætla að setja fram þann spádóm, að Ríkisútvarpið verði aldrei einkavætt eða selt, þjóðin vildi almannaútvarp. Guðni sagði, að frjálshyggjuþjóðin Bretland verði BBC sem þjóðarútvarp.

Guðni sagði, að Ríkisútvarpið yrði ekki selt samkvæmt þessu frumvarpi nema það komi aftur til umræðu á Alþingi og stjórnarandstaðan hefði verið í pólitískum skollabuxum og blekkingaleik síðustu 10 daga. Guðni sagði, að með frumvarpinu væri verið að færa Ríkisútvarpinu úrræði til að mæta samkeppni og skrítið, að ríkiskommaflokkur eins og VG leggist gegn slíkri ríkisvæðingu.

„Ríkisútvarpið má ekki vera eins og hestur í hafti þegar ljóst er að úrvarpsrekstur er spretthlaup," sagði Guðni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert