Ingibjörg Sólrún segist ekki taka þátt í þagnarbandalagi um Evrópumál

Ingibjörn Sólrún Gísladóttir flytur ræðu sína í dag.
Ingibjörn Sólrún Gísladóttir flytur ræðu sína í dag.

Á aðalfundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík í dag flutti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar ræðu þar sem hún ræddi m.a. sérstöðu Samfylkingarinnar, efnahagsmál, stóriðjumál, málefni eldri borgara og misnotkun ríkisstjórnarinnar á valdi sínu og vísaði með því í Baugsmálið og Byrgismálið. Hún sagði jafnframt að Samfylkingin tæki ekki þátt í þagnarbandalagi um Evrópumál.

„Við höfum sett tvö stór mál á dagskrá á þessum vetri. Í fyrsta lagi lækkun matvælaverðs og í öðru lagi evruna og málefni ESB sem leið til að ná niður okurvöxtum og alltof háu verðlagi á Íslandi. Það liggur fyrir í skoðanakönnunum að upp undir helmingur þjóðarinnar er fylgjandi aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar,” sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagði að það væri forgangsmál að kæla hagkerfið. „Það felur í sér að fresta beri öllum stóriðjuframkvæmdum á næstu árum. Hins vegar hefur Samfylkingin í Hafnarfirði fært íbúunum í Hafnarfirði mikilvægt tæki til að hafa áhrif á sitt nærumhverfi. Samfylkingin í Hafnarfirði ákvað að virkja lýðræðið til að leysa deiluna og við erum stolt af þeirri ákvörðun,” sagði Ingibjörg Sólrún í ræðu sinni í dag.

Hún taldi íslensk stjórnvöld hafa farið kæruleysislega með vald sitt. „Stjórnvöld hafa brugðist eftirlitsskyldu sinni með öryggi borgaranna og meðferð opinbers fjár. Þetta hefur að undanförnu birst okkur í Byrgismálinu, barnaníðingsmálinu og Baugsmálinu. Baugsmálið er hneyksli og áfellisdómur yfir ákæruvaldinu. Í öðrum löndum væri Baugsmálið, ófarir lögreglunnar og ákæruvaldsins réttarfarslegt hneyksli. Í öðrum löndum væri einhver gerður ábyrgur í Byrgismálinu, aðrir en starfsfólk Byrgisins og skjólstæðingar þess,” sagði Ingibjörg Sólrún að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert