Borgarráð samþykkti að taka tilboði Novators í Fríkirkjuveg 11

Fríkirkjuvegur 11 að vetrarlagi.
Fríkirkjuvegur 11 að vetrarlagi. mbl.is/Sverrir

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag, að taka tilboði Novator, fjárfestingafélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar, í húsið Fríkirkjuveg 11 í Reykjavík. Kaupverðið er 600 milljónir en hugsanlegt er að kaupandinn greiði allt að 200 milljónir til viðbótar vegna ýmissa framkvæmda við hús og á lóð.

Fram kemur í tilboðinu, að fyrirhugað sé að koma húsinu og lóðinni í upprunalegt horf og setja þar upp safn um líf Thors Jensens, langafa Björgólfs, sem reisti húsið á sínum tíma.

Fjögur tilboð bárust í húsið og samþykkti borgarráð með atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar að taka tilboði Novators. Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs greiddi atkvæði á móti og mun málið því koma til endanlegrar afgreiðslu á fundi borgarstjórnar eftir hálfan mánuð.

Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, sagði við Fréttavef Morgunblaðsins að hann væri geysilega ánægður með þessa niðurstöðu. Borgin fengi gott verð fyrir þetta virðulega hús og hann væri sannfærður um að þær hugmyndir, sem fælust í tilboði Novator, muni verða miðborginni til hagsbóta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert