Engin erindi hafa borist um stuðning við hernað í Íran

Kjarnorkuvinnslustöð í Íran.
Kjarnorkuvinnslustöð í Íran. Reuters

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að engin erindi, hvorki formleg né óformleg, hafi borist frá Bandaríkjamönnum um stuðning við hugsanlegan hernað gegn Íran og því hefði ríkisstjórnin ekki tekið afstöðu til slíks máls.

Geir var að svara fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni VG, sem spurði hvort Bandaríkjamenn leitað hófanna hjá ríkisstjórn Íslands um svipaðan stuðning við hugsanlegan hernað gegn Íran og aflað var í aðdraganda innrásarinnar í Írak.

Geir sagði að ekkert lægi fyrir um slík áform Bandaríkjamanna og ráðamenn þar hefðu raunar lýst því yfir, að ekkert slíkt stæði til. Hins vegar mikið áhyggjuefni hvernig þróun hefði verið í kjarnorkumálum í Íran. Íranar brytu bæði alþjóðlega samninga um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna og ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Steingrímur spurði Geir einnig hvort ríkisstjórnin hefði tekið til skoðunar að afturkalla loforð gefin Bandaríkjamönnum í aðdraganda innrásar í Írak um atbeina í formi afnota af íslenskum flugvöllum og lofthelgi. Geir sagði að sú heimild hefði ekki verið formlega afturkölluð en hún ætti að sjálfsögðu ekki við lengur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert