Samfylkingin: Lífeyrir mæti framfærslu lífeyrisþega

Samfylkingin vill að lífeyrir mæti framfærslu lífeyrisþega og að frítekjumark lífeyrisþegar verði hækkað í 100 þúsund krónur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar, Ellert B. Schram formaður 60+ og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þingmaður Samfylkingar kynntu í dag á fundi á Hótel Nordica í Reykjavík stefnuáherslur flokksins og 60+.

Samfylkingin og samtökin 60+ í Samfylkingunni hafa boðað til baráttufunda um allt land til að vekja athygli á málefnum eldri borgara. Samfylkingin leggur áherslu á að velferð eldri borgara verði í öndvegi á næsta kjörtímabili með aðgerðum er tryggi mannsæmandi lífeyri, svigrúm til að auka tekjur án þess að tryggingabætur skerðist og sanngjarna skattlagningu þessa hóps sem með atorku sinni lagði grunninn að velferðarkerfinu.

Þegar hafa verið haldnir fundir á vegum Samfylkingarinnar og 60+ í Reykjanesbæ, Hafnarfirði, á Akranesi, Sauðárkróki, Siglufirði, Árborg og í Vestmannaeyjum. Í kvöld verður haldinn fundur á Egilsstöðum, annað kvöld í Kópavogi og á fimmtudagskvöld verða fundir á Akureyri og í Húsavík.

Meðal stefnumarkmiða sem kynnt voru er að lífeyrir mæti framfærslu lífeyrisþega eins og hún mælist í neyslukönnun Hagstofu Íslands hverju sinni og leiðrétting fari fram í áföngum.

Þá er stefnt að því að frítekjumark vegna tekna aldraðra verði hækkað í 100 þús. kr. og nái jafnt til lífeyristekna og atvinnutekna. Að tekjur maka skerði ekki tryggingabætur ellilífeyrisþega og að skattar á tekjur úr lífeyrissjóðum verði lækkaðir í 10%.

Þá vill flokkurinn að skattleysismörk verði hækkuð í áföngum á næsta kjörtímabili í samræmi við breytingar á launavísitölu og segir að ef þessari reglu hefði verið fylgt væru skattleysismörk 136 þúsund krónur í stað 90 þúsund króna eins og þau eru í dag

Samfylkingin vill einig að ráðist verði í stórátak í uppbyggingu fjölbreytilegra búsetuúrræða fyrir eldri borgara og að heimahjúkrun verði aukin til muna. Lögð verði áhersla á að útrýma biðlistum eftir hjúkrunarrýmum. Á hjúkrunar- og dvalarheimilum verði nægt framboð sérbýla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert