Þurfti að ganga á milli hæða til þess að fara í keisaraskurð

Aðeins ein lyfta er á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði og bilaði hún í síðustu viku, einmitt þegar að kona þurfti að komast í keisaraskurð, eftir fimmtán klukkustunda hríðir.

Greint er frá þessu á fréttavefnum Bæjarins besta.

Matthildur Valdimarsdóttir er konan sem um er rætt og segir hún, í samtali við Bæjarins besta, afar óheppilegt að lyftan skyldi hafa bilað einmitt þegar hún þurfti að komast niður á skurðdeild. Hún gat þó með herkjum gengið á milli hæða og komst niður á næstu hæð þar sem aðgerðin var framkvæmd.

Þegar keisaraskurðinum var lokið og móðirin þurfti að komast upp til nýfæddrar dóttur sinnar sem þar beið, þá var lyftan enn biluð.

Kalla þurfti út sjúkraflutningamenn til að bera hina nýbökuðu móður á milli hæða.

Matthildur segir mildi að ástand hennar hafi ekki verið alvarlegra. Hún þakkar starfsfólki Fjórðungssjúkrahússins þeirra viðbrögð og segir þau hafa gert allt til að létta henni lífið undir þeim kringumstæðum sem sköpuðust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert