Yfirheyrslum yfir Jóni Ásgeiri lokið

Jón Ásgeir í réttarsal Héraðsdóms Reykjavíkur.
Jón Ásgeir í réttarsal Héraðsdóms Reykjavíkur. mbl.is/Ásdís

Yfirheyrslum yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs Group, lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur laust eftir klukkan 15 í dag, en hann mætti í réttarsalinn um klukkan 13:30. Jón Ásgeir sagði m.a. í dómssalnum, að hann teldi að málið hefði allt skaðað Baug mjög mikið.

Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, stöðvaði yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri í síðustu viku á þeirri forsendu að þær hefðu farið langt yfir tímaáætlun. Sú niðurstaða fékkst, að Jón Ásgeir kom í réttarsalinn í dag svo hægt væri að ljúka yfirheyrslunni. Fékk Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, klukkustund til að ljúka yfirheyrslunni og Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, fékk hálftíma til að leggja spurningar fyrir skjólstæðing sinn.

Saksóknari spurði Jón Ásgeir aðallega um skemmtibát á Miami. Jón Ásgeir sagðist ekki kannast við að Gaumur, fjárfestingarfélag Baugsfjölskyldunnar, hefði átt bátinn heldur hefði hann alla tíð tilheyrt Jóni Gerald Sullenberger. Þá voru bornir undir Jón Ásgeir tölvupóstar og sagðist hann kannast við innihald sumra þeirra.

Í síðari hluta yfirheyrslunnar sagðist Jón Ásgeir telja að rekstur málsins hefði skaðað Baug mjög mikið og lögreglan hefði ekki rannsakað nema þá hluti, sem henni hentaði. Þá sagðist hann telja, að upphaf málsins mætti rekja til fundar Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs, með Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra í Lundúnum á árinu 2002.

Sigurður Tómas spurði Jón Ásgeir þá hvort hann teldi að málið hefði hafist vegna kvennamála eða af pólitískum ástæðum. Jón Ásgeir sagðist telja, að báðir þessir þættir ættu hefðu komið við sögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert