Fjöldi tækja við hreinsun gatna í höfuðborginni

Unnið að götuhreinsun
Unnið að götuhreinsun mbl.is/Jim Smart

Í þessari viku viðraði loks til hreinsunar gatna í Reykjavík, en aðeins er hægt að sópa þegar götur eru snjólausar og ekki er frost. Mikilvægt var að komast í þetta verk til að vinna gegn svifryksmengun í borginni, að því er segir á vef Reykjavíkurborgar.

 Notaðir voru sópbílar, ruslasugur og vatnsbílar á vegum verktaka sem sinnir þessu fyrir Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar.

Um miðja vikuna voru meginstofnbrautir einnig rykbundnar með magnesíumklóríðblöndu, en það heldur götunum rökum og dregur þannig úr svifryki.

Alls var úðað um 8000 lítrum af 19% magnesíumklóríðblöndu sem löguð var í nýrri saltpækilstöð sem sett var upp á vegum Framkvæmdasviðs í upphafi ársins.

Haft er eftir Guðbjarti Sigfússyni, verkfræðingi og deildarstjóra á gatna- og eignaumsýslu, á vefsíðu Framkvæmdasviðs Reykjavíkur, að í framhaldi af úðuninni verði mælingar á svifryki skoðaðar sérstaklega til að meta árangur þessarar aðferðar við rykbindingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert