Þjóðlendumál ofarlega í huga framsóknarmanna á flokksþingi

Frá blaðamannafundi ráðherra Framsóknarflokksins nú síðdegis
Frá blaðamannafundi ráðherra Framsóknarflokksins nú síðdegis mbl.is/Golli

Að sögn Jóns Sigurðssonar voru þjóðlendumál mikið rædd á flokksþingi Framsóknarflokksins sem lauk nú síðdegis. Segir Jón að framsóknarmenn leggi mikla áherslu á að skapa sátt um eignarhald á landi og leggja áherslu á að það verði reynt að vinna hratt í að ná sáttum í þeim málum. Jafnvel þurfi að endurskoða lög sem gilda um þjóðlendur.

Jón segir að mikil vinna hafi farið fram á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag og í gær. Á flokksþinginu voru um 600 fulltrúar og unnar um 60 ályktanir.

Segir hann að sterkur samhugur, samstaða og áhugi hafi einkennt flokksþingið en að sjálfsögðu hafi verið skiptar skoðanir um ákveðin mál.

Í ályktunum flokksþingsins er mikil áhersla lögð á fjölskyldumál, menntamál, atvinnumál, auðlindamál og jafnvægi og stöðugleika í efnahagsmálum.

Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokkurinn, segir að þær tillögur sem samþykktar voru haldi Íslandi áfram á grænu ljósi.

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að Framsóknarflokkurinn muni vinna áfram fyrir þá sem verst hafa það á Íslandi. Meðal þess sem ályktað var að virðisaukaskattur af lyfjum yrði lækkaður í 7% í samræmi við aðra nauðsynjavöru. Eins var samþykkt ályktun um að tannlæknakostnaður verði börnum að kostnaðarlausu. Stórefla þurfi félagslega heimaþjónustu fyrir aldraða en Siv segir að sveitarfélög hafa dregið úr þjónustu við aldraða á undanförnum árum.

Að sögn Sivjar var samþykkt að auka hlut kvenna í stjórnmálum og atvinnulífi. Tryggja þurfi jafna aðkomu kynjanna að fjölmiðlum. Þá beri að stuðla að jöfnum hlutföllum kynjanna við stjórnun fjölmiðla og meðal starfsfólks þeirra.

Að sögn Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, var samþykkt á flokksþinginu að auka þurfi hlut Íslendinga innan Atlantshafsbandalagsins en jafnframt var fjallað um þróunarmál og friðargæslu. Eins hafi verið samþykkt ályktun um að samskipti Íslendinga og Evrópusambandsins sé fyrst og fremst í gegnum EES-samninginn. Ekki óskað eftir aðild án málefnalegrar umræðu og án flokkadrátta. Það sem skiptir máli er hvað er best fyrir Ísland.

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, segir að ályktað um mikilvæg umhverfismál meðal annars um loftslagsmál og aukna notkun vistvænna bíla og eldsneytis með niðurfellingu gjalda. Eins var lögð mikil áhersla á friðun Jökulsár á Fjöllum. Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, sagði á blaðamannafundi að meðal þess sem ályktað hafi verið um á flokksþinginu hafi verið að vinna að eflingu Íbúðalánasjóðs og að fæðingarorlof verði lengt úr 9 mánuðum í 12 mánuði.

Í ályktununum kemur fram skýr vilji flokksmanna til þess að flokkurinn leggi áherslu á áframhaldandi uppbyggingu og eflingu velferðarkerfis landsmanna, menntakerfisins, heilbrigðiskerfisins, þjónustu við aldraða og öryrkja, börn og þá sem eiga við veikindi að stríða og standa höllum fæti í lífsbaráttunni.

Ennfremur var lög mikil áhersla á að áfram verði haldið að nýta auðlindir þjóðarinnar af varúð og virðingu. Stefnt skuli að því að orkunýting í landinu verði sjálfbær. Öllum landsmönnum verði tryggður arður af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Ályktanir sem samþykktar voru á flokksþingi Framsóknarflokksins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert