Björk saknaði hrynjandinnar

Björk Guðmundsdóttir
Björk Guðmundsdóttir mbl.is

Söngkonan Björk tilkynnti fyrir fáeinum dögum um næstu breiðskífu sína, Volta, sem kemur út í maí næstkomandi. Á tónlistarvefnum Pitchfork birtist í gær viðtal við Björku, það fyrsta í röð viðtala sem birtast munu á vefnum á næstu vikum og fjalla einkum um hrynjandi tónlistarinnar á plötunni óútkomnu.

Í viðtalinu segir Björk að aðferðirnar sem notaðar hafi verið við vinnslu Volta hafi verið nokkuð aðrar en þær sem hún hafi beitt hingað til. Hrynjandin hafi oft verið útgangspunktur, a.m.k. á plötunum Homogenic, Vespertine og Medulla. Á Homogenic segist hún hafa hafið vinnuna á því að búa til bjagaða rokktakta, Vespertine hafi borið þess merki að hún hafi skömmu áður eignast fyrstu fartölvuna og því einkenni smellir og hvísl plötuna, túlkun hennar á stöðurafmagnsheimi netsins.

Á Medulla var unnið með raddir, en á þeirri nýju segist Björk hafa verið tilfinningalega viss um það hvað hún vildi gera, platan hafi verið nær öll verið unnin, en að undir lokin hafi allt verið tilbúið, nema taktar. Margar tilraunir hafi verið gerðar en þeim hent jafnóðum þar sem vönduð trommuforritunin hafi verið tilgerðarleg.

Að lokum varð niðurstaðan sú að nota einfalda takta úr gömlum trommuvélum á borð við Roland 808 og 909, og segir Björk að nokkur fortíðarþrá hafi e.t.v. ráðið því. Niðurstaðan sé einföld hrynjandi á borð við rave- og trance tónlist fyrri hluta tíunda áratugarins blandað við „mjög, mjög órafmagnaðar trommur”.

Þá líkir Björk þróuninni við keppni, og segir að hún hafi verið orðin þreytt á þeirri pressu sem henni fylgdi og ungum trommuforriturum og upptökustjórum sem vildu starfa með henni. Segir söngkonan að hrynjandin hafi verið orðin að tískuyfirlýsingu.

„Ég vildi bara gera takta aftur”, segir Björk í viðtalinu. „Medulla var mín leið til að losna frá því að vera hólfuð niður sem ‘Ó hvaða hrynjandi gerir hún næst?’ [...] „En ég saknaði taktanna, segir Björk, ég dái takta”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert