Pissaði á rútugólfið þegar bílstjórinn neitaði að stoppa

„Drengurinn gat einfaldlega ekki haldið í sér lengur og tæmdi því blöðruna á ganginum í rútunni,” segir Grétar Hjaltason, listamaður frá Selfossi, við fréttavefinn Suðurland.is. Hann varð vitni að því að bílstjóri í áætlunarbíl neitaði nýlega ungum dreng um pissustopp með ofangreinum afleiðingum.

Haft er eftir Grétari að drengurinn, sem er átta ára gamall hafi verið á leið áleiðis frá Reykjavík austur á Selfoss með bróður sínum á svipuðum aldri. Uppi á Hellisheiði bað hann bílstjórann um að stoppa því honum væri mál að pissa. Því neitaði bílstjórinn. Þegar komið var í Hveragerði bað strákurinn aftur að fá að fara út en bílstjórinn sagði þá, að ætli hann út verði hann skilinn eftir. Drengurinn sat áfram í rútunni en eftir að hafa fengið neitun í þriðja sinn vippaði sér úr sætinu og sprændi á ganginn í rútunni.

„Strákurinn var alveg miður sín yfir að þurfa að grípa til þessa örþrifaráðs," er haft eftir Grétari, sem segir að bílstjórar séu undir miklu álagi að halda tímaáætlunum. Segist hann hafa lagt fram kvörtun við viðkomandi fyrirtæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert