Stríðsandstæðingar krefjast þess að íslensk stjórnvöld axli ábyrgð

Davíð Þór Jónsson er kynnir kvöldsins.
Davíð Þór Jónsson er kynnir kvöldsins. mbl.is/Brynjar Gauti

„Hinir staðföstu stríðsandstæðingar“ efndu til baráttusamkomu nú klukkan 20 í kvöld í Austurbæ. Þar er hernáminu í Írak mótmælt og þess krafist að íslensk stjórnvöld axli ábyrgð vegna „hins svívirðilega stuðnings við ólöglegt árásarstríð,“ segir í tilkynningu frá hópnum. Fjögur ár eru liðin frá innrás Bandaríkjamanna í Írak.

„Hinir staðföstu stríðsandstæðingar“ er heiti á hópi félagasamtaka sem eiga það sameiginlegt að hafa alla tíð andæft stríðinu í Írak og gera það enn. Í hópnum eru ungliðahreyfingar tveggja stjórnmálaflokka auk félaga sem látið hafa sig varða friðar- og afvopnunarmál.

Í tilkynningu segir að nú þegar fjögur ár séu liðin frá þessari hörmulegu innrás hafi heiminum aldrei mátt vera betur ljóst hvílík mistök hafi verið þar gerð. „Mistök þessi nutu fulltingis íslensku ríkisstjórnarinnar,“ segir í fréttatilkynningu.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Helgi Hjörvar flytja ávörp á fundinum og XXX Rottweilerhundar, Ólöf Arnalds og Vilhelm Anton Jónsson eru með tónlistaratriði fyrir gesti.

Þá er Bragi Ólafsson með upplestur og kynnir kvöldsins er Davíð Þór Jónsson.

Hinir staðföstu stríðsandstæðingar eru:

Samtök hernaðarandstæðinga, MFÍK, Þjóðarhreyfingin - með lýðræði, Ung vinstri græn og Ungir Jafnaðarmenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert