Þjóðin á þetta útvarp

Páll Magnússon
Páll Magnússon mbl.is/Árni Sæberg

Það verða tímamót í rekstri Ríkisútvarpsins þegar það breytist úr ríkisstofnun í opinbert hlutafélag um mánaðamótin. Páll Magnússon útvarpsstjóri segist í viðtali við Pétur Blöndal í sunnudagsblaði Morgunblaðsins verða að höfða til heilbrigðrar skynsemi og yfirlýstrar velvildar í garð Ríkisútvarpsins og beina þeim orðum til stjórnmálamanna að þeir gangi ekki fram með þeim hætti að rekstri Ríkisútvarpsins verði aftur stefnt út í sömu óvissu og það hefur mátt þola síðustu árin.

„Stofnunin hefur verið lömuð út af þessari óvissu árum saman og það er stórskaðlegt. Menn hafa orðað þetta svo sumir hverjir að það eigi að endurheimta RÚV. Ég veit þá ekki alveg frá hverjum það var tekið og hver tók það. Við erum að tala um formbreytingu á rekstri, en ekki eignarhaldi. Menn geta svo haft uppi ýmis sjónarmið um hvernig rekstrarformið eigi að vera, en grundvallaratriðið er að það tók enginn RÚV frá neinum; það er áfram í eigu þjóðarinnar og hvað svo sem menn gera sem mynda næstu ríkisstjórn treysti ég því að þeir beri hag RÚV fyrir brjósti og steypi því ekki út í nagandi óvissu á ný.“

Hart var deilt á þingi um breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins og lýsti stjórnarandstaðan því yfir að það yrði endurskoðað eftir kosningar.

Óðinn Jónsson, fréttastjóri á fréttastofu útvarps, segir mikilvægt að friður skapist um Ríkisútvarpið.

„Ég vona svo sannarlega að engum stjórnmálamanni detti í hug að hverfa til baka. Það er komið nóg af óvissu og umræðu um hvernig Ríkisútvarpið eigi að verða. Vissulega breytist rekstrarformið en þetta verður áfram almannafyrirtæki og ekki stendur til að breyta því. Ég veit ekki til þess að það standi til að selja það eða einkavæða. Þjóðin á þetta útvarp.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert