Málflutningur í Baugsmáli verður næstu fjóra daga

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu, sagði í upphafi málflutnings í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að ekki væri að sjá að framburður vitna skjóti neinum rótum undir samsæriskenningar, sem verið hafi uppi um upphaf málsins.

Sagði Sigurður Tómas, að allra gagna í málinu hefði verið aflað með lögmætum hætti, unnið hefði verið af heilindum og samviskusemi og rannsóknin hefði á engan hátt verið frábrugðin rannsókn annarra umfangsmikilla sakamála. Sagði Sigurður Tómas að málið ætti rætur að rekja til brota, sem sakborningar hafi gerst sekir um.

Málflutningur í Baugsmálinu svonefnda hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en gert er ráð fyrir, að málflutningurinn taki fjóra daga og ljúki á fimmtudag. Sigurður Tómas mun flytja mál sitt í tvo daga en síðan taka verjendur sakborninga við á miðvikurdag.

Sigurður Tómas gerði í upphafi þær kröfur, að sakborningarnir þrír yrðu dæmdir í samræmi við ákæru og ákveðin refsing í samræmi við lög auk þess að greiða sakarkostnað. Sagði Sigurður Tómas, að málið snérist um talsvert flókin og umfangsmikil brot, sem féllu öll undir flokkinn efnahagsbrot.

Sigurður Tómas sagði, að málið fjallaði um rekstur almenningshlutafélagsins Baugs, sem væri talsvert öðruvísi félag en Baugur Group nú. Eftir hlutafjárútboð í félaginu í apríl 1999 hefðu hluthafar verið 5729 talsins. Þeim hefði síðan fækkað þannig að hluthafar hafi verið 2084 í árslok 2001 og 1898 í árslok 2002. Stærsti hluthafinn hefði frá upphafi verið Fjárfestingarfélagið Gaumur ehf. Sagði Sigurður Tómas, að þetta mál hefði væntanlega ekki orðið til nema vegna þess, að um var að ræða almenningshlutafélag þar sem bæri að gæta hagsmuna allra hluthafa.

Þá sagði Sigurður Tómas fróðlegt að skoða málið í ljósi þróunar á rekstri fjármálafyrirtækja. Þannig hefði velta Baugs aukist úr 26 milljörðum árið 2000 í 950 milljarða árið 2005 og hagnaður félagsins hefði aukist úr 590 milljónum í 28 milljarða á sama tíma eða 47 faldast. Þessar breytingar gæfu góða vísbendingu um það sem gerst hefði á þessum tímabili. Sagði Sigurður Tómas, að fólk fremdi lögbrot vegna ótrúlega lítilla verðmæta og það væri ekki bara fátækt fólk sem fremdi brot. Málið yrðu að nálgast á grundvelli sönnunargagna en ekki ytri aðstæðna.

Saksóknari sagði, að reynt hefði verið að gera rannsókn málsins tortryggilegt með því að halda því fram að það væri runnið undan rifjum manna á borð við Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra, Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokks og Styrmi Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, svo nokkuð væri nefnt. Þá hefði verið gefið í skyn að Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, og Jón H.B. Snorrason, fyrrum yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, hafi gengið erinda þessara manna og vegið hefði verið ómaklega að starfsheiðri lögreglumanna og starfsmanna ákæruvaldsins.

Sigurður Tómas sagði, að samsæriskenningar væru ekki nýjar af nálinni í efnahagsbrotamálum heldur nánast órjúfanlegur þáttur í vörn manna í slíkum málum. Nefndi hann nokkur dæmi, m.a. mál Eggerts Haukdals og Árna Johnsen, sem hefði borið ríkislögreglustjóra þungum sökum og talað um samsæri gegn sér af hálfu lögreglu, dómsvalds og áakæruvalds. Einnig mætti sjá þetta í Hafskipsmálinu og fjöldi bóka og greina hefði verið skrifaður um slíkar samsæriskenningar. Þá mætti sjá það sama í framburði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fyrir dómi.

Sigurður Tómas sagði einnig, að ekkert samræmi væri í framburði Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs Group, og Jóns Ásgeirs um frægan fund Hreins með Davíð Oddssyni í London. Ekki væri séð, að framburður vitna í málinu skjóti neinum rótum undir samsæriskenningar og segja mætti að þær hafi fallið um sjálft sig með framburði Hreins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert